Viðtal við Eírík Hauksson

Góðan daginn. Hér ætla ég, eftir því sem tími gefst til, að kynna til til sögunnar lítt þekktar hljómsveitir af ýmsum toga, og eftir því sem hægt er bjóða upp á hljóðdæmi á mp3 formi.

Til að byrja með datt mér þó í hug, þar sem Eiríkur Hauksson hefur verið eilítið í fréttunum undanfarið, að bjóða uppá viðtal við garpinn. Árið 1986, þegar ég var á 13 ári, átti ég nefninlega þátt í útgáfu lítils skólablaðs í Æfingaskólanum, sem nú kallast Háteigsskóli. Ég og félagið minn Jón Torfi Gylfason, sem ég held að sé læknir núna, fengum þá snjöllu hugmynd að gera blað, sem reyndar varð ekki nema eitt tölublað.

Blaðið fékk nafnið "Vá" og hefur eflaust verið innspírað af t.d. íslenska tímaritinu Smellur. Það kostaði 50 kr. og innihélt m.a. brandara, umfjöllun um sjónvarpsþáttinn Dallas, skoðanakönnun um hvernig fólki litist á að ísland væri farið að flytja út vatn, og síðast en ekki síst fórum við með stjörnur í augum að taka viðtal við Eirík Hauksson sem þá var að skjótast upp á stjörnuhimininn með tríóinu Icy. Allt var þetta samviskusamlega vélritað, ljósritað og heftað saman.

Ég man ekki mikið eftir viðtalinu sjálfur, en við hittum hann í heimahúsi í teigunum, hugsanlega í Hraunteig. Við vorum auðvitað ægilega feimnir við hann og uppnumdir af að vera í návist svona frægs manns. Viðtalið er svo barn síns tíma, til að mynda var Rás 2 eini miðillinn þar sem hægt var að heyra popptónlist, og margir brutu lög og tóku ólöglega upp tónlist á kassettur úr útvarpinu. Því er þarna m.a. undarleg spurning um Rás 2.

 

Viðtal við Eirík Hauksson - 1986

Kvæntur: Helgu Guðrúnu Steingrímsdóttur
Barn: Hildur Eiríksdóttir, 5 ára
Menntun: Útskrifaður kennari
Skónúmer: 42
Aldur: 26 ára

Hafðir þú ætlað þér frá blautu barnsbeini að verða kennari?

Nei, alls ekki. Alveg fram til 15 ára aldurs var ég ákveðinn í að verða atvinnumaður í knattspyrnu.

Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir í þessum svokölluðu bílskúrshljómsveitum

Þá var ég 15 ára.

Finnst þér nægilega mikið gert til að koma óreyndum bílskúrshljómsveitum á framfæri?

Nei alls ekki, það er mjög leiðinleg aðstaða sem þannig hljómsveitir eru í, fá ekkert að spila.

Hvað varð um Drýsil?

Drýsill er lagstur í dvala, en það getur vel verið að sú hljómsveit verði endurvakin einhverntíman seinna.

Ertu alveg hættur að spá í gamla góða Drýsilsrokkið?

Nei alls ekki, það er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér.

Hvaða álit hefur þú á hljómsveit á borð við Duran Duran?

Þeir hafa svosem gert ágæta hluti, en í heildina finnst mér þeir ekkert mjög spennandi, spila meira upp á útlitið en tónlistina.

En Rikshaw?

Þeir eru nokkuð skemmtilegir finnst mér, ne ég hef bara ekki heyrt nógu mikið í þeim.

Er nokkur friður fyrir blaðamönnum á þínu heimili?

Já, það hefur verið heldur mikið um það á mínu heimili svona upp á síðkastið. En Maður talar bara við þá sem maður vill tala við.

Heldurðu að klæðnaðurinn skipti máli í poppbransanum?

Já, hann gerir það, gífurlega mikið.

Semurðu tónlist sjálfur?

Já, ég hef gert það, ég samdi til dæmis næstum öll lögin á Drýsilsplötunni, einnig samdi ég megnið af því sem var með hljómsveitinni Start. En ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að semja upp á síðkastið.

Spilarðu á eitthvað annað en raddböndin?

Já, líka á gítar og smá á hljómborð

Lestu poppblöð eins og sumir sannir poppaðdáendur?

Nei, ekkert að ráði, en maður svona gluggar í þetta þegar maður fer að versla í Hagkaup.

Hyggur þú á sólóplötuútgáfu?

Já, ég reikna með að gera það einhverntíman á þessu ári.

Hvernig eyðir þú frítíma þínum?

Þeir eru engir (hlær). Eða allavegana mjög lítið um þá núorðið, þá nota ég bara tímann og slappa af með fjölskyldunni. Það veitir ekki af.

Hvaða álilt hefur þú á íslenskri popptónlist?

Hún er ágæt, en það sem háir okkur helst er það að markaðurinn er svo lítill.

Standa nágrannalönd okkar betur að vígi en við í poppinu?

Já, þau gera það, við erum alltaf dálítið einangruð hérna norður í hafi.

Er einhver sérstakur íslenskur poppari sem er í miklu uppáhaldi hjá þér?

Já, til dæmis Björgvin Gíslason gítarleikari, ég hef alltaf haldið mikið upp á hann.

Nú er Gunnar Þórðarson einn af frumkvöðlum poppsins hér á landi, hvernig er að vinna með honum?

Það er mjög þægilegt, hann hefur mikla reynslu og er rólegur og yfirvegaður.

Hvernig leist foreldrum þínum á þetta brask í þér?

Bara ágætlega. Til dæmis var mamma miklu hrifnari af því að ég væri í poppinu heldur en með mótorhjóladellu.

Nú hefur sá orðrómur lengi verið á sveimi að Rás 2 dragi úr plötusölu. Hvaða álit hefurðu á henni? (Rás 2 semsagt).

Ég er nú ekki viss um að hún dragi úr plötusölu, en hinsvegar þá var hún mjög stöðnuð í músík, sama tónlistin í sitthvorum þættinum með sitthvorum stjórnanda. En hún hefur skánað mikið undanfarið ...... síðan hún fór að spila mína tónlist (hlær).

Nú átt þú þér, eins og flestir frægir popparar eiga, aðdáendahóp. Þarftu ekki að panta lífverði þegar þú ferð út að versla svo þeir ráðist ekki á þig?

Nei, ekki er það nú svo slæmt, en maður er stundum beðinn um eiginhandaráritun. Það er allt í lagi.

Hvernig varð þér innanbrjósts þegar þú áttir þess kost að fara til Bergen?

Ég var svona efins, en eftir að hafa íhugað þetta þá ákvað ég að slá til, þetta getur verið skemmtileg reynsla.

Hvað fannst þér besta lagið af þeim tíu sem kepptu til úrslita hér á landi?

Mér fannst besta lagið "Gefðu mér gaum", eftir Gunna, sem ég söng (hlær).

Hvernig stóðstu þig sem strákur í skóla?

Svona þokkalega, lærði fyrir prófin og náði þeim.

Hvernig bækur lestu helst?

Ég les mjög lítið af bókum, en nýlega fór ég í gegnum allt Sherlock Holmes safnið. Ég les aðallega spennu- og leynilögreglusögur.

Við ritstjórar tveir þökkum Eiríki Haukssyni kærlega fyrir þetta viðtal, og fyrir að hafa fengið að eyða dýrmætum tíma hans. Eiríkur er brosmildur og skemmtilegur. Það var virkilega gaman að kynnast honum.

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband