14.7.2007 | 10:58
The Way Down
Jón Sæmundur, kenndur við Dead, lætur sér ekki nægja að hanna og selja drungaleg föt sem renna út eins og heitar lummur, heldur hefur hann nú líka sett á fótinn útgáfufyrirtækið Dead Records.
Fyrsta útgáfa Dead Records leit dagsins ljós á föstudaginn í seinustu viku, þegar platan See You In Hell með The Way Down kom út. Um er að ræða þriggja tommu geisladisk sem, þrátt fyrir stærðina, inniheldur hvorki meira né minna en 9 lög.
Forsprakki sveitarinnar er bassaleikarinn Ari Eldon sem áður hefur komið við sögu í hljómsveitunum Bless, Dýrið Gengur Laust og Sogblettum. Honum til stuðnings er ektakvinna hans Riina, sem leikur á gítar, og á trommurnar lemur Maggi "Thunder" Þorsteinsson. Maggi átti spretti hér áður fyrr t.d. með Bleiku Böstunum sem gáfu út vínyl plötu hjá Smekkleysu fyrir um 20 árum síðan, og hann hefur í nógu að snúast þessa dagana þar sem hann trommar einnig með hljómsveitinni Bacon.
Diskurinn með The Way Down fæst í það minnsta í 12 Tónum ef ekki á fleiri stöðum, og væntanlega í nýlega opnaðri Dead búð sem er nú í bakhúsi á Laugavegi 29, beint á móti Skífunni. Ég mæli alveg hiklaust með þessum disk, og það verður spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þessa nýju útgáfu.
MP3: The Way Down - Lee Black Childers
MP3: The Way Down - Metamphetamine (óútgefið demo)
Heimasíða The Way Down
Heimasíða Dead
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.