5.10.2007 | 17:18
Ultra Mega Technobandið Stefán
Ég skellti mér á Organ í gær og upplifði þar eina skemmtilegustu, og undarlegustu, tónleika þessa árs. Þar voru sómapiltarnir i Ultra Mega Technobandinu Stefán að spila. Ég hafði aldrei séð bandið áður og vissi ekki á hverju væri von, helst datt mér þó í hug að maður sæi nokkra alvarlega gaura húka yfir synthum og samplerum og snúa einhverjum óskiljanlegum tökkum.
Annað kom svo uppúr dúrnum, og ég tók mér fljótlega stöðu á bakvið eina súluna í salnum þegar söngvarinn, og reyndar allt bandið nema trommarinn, tóku að hoppa og skoppa af lífi og sál, hrinda hvor öðrum og velta græjunum sínum á gólfið.
Míkrófónninn datt fljótlega svo að segja alveg út, og áður en yfir lauk var bassinn líka ónýtur. Það stoppaði þó ekki fjörið og bassaleikarinn slammaði í pyttinum seinustu tvö lögin. Það myndaðist nefninlega sæmilegast slamm-pyttur fyrir framan sviðið þegar á leið, og þetta var eins og að vera á gargandi harðkjarnagiggi. Á milli einhverra laga lagðist söngvarinn svo á gólfið til að varpa öndinni, en ég og fleiri héldum að hann hefði hreinlega rotað sjálfan sig í hamaganginum.
Svo virtist sem fækkaði í salnum fljótlega, einhverjir hafa hreinlega ekki höndlað lætin. Það var líka gaman að heyra að margir klöppuðu sífellt hægar eftir hvert lag, það var einhver svona "hvað í fjandanum var að gerast?!" stemning þarna. Og það er bara alger snilld. Ég hló með sjálfum mér alla leiðina heim og sofnaði brosandi. Þannig á gigg að vera!
Ég hef ekki hlustað á neitt annað í vinnunni í dag en Ultra Mega Techno Bandið Stefán. Þeir spila svo á Nasa í kvöld líka og ég ætla að mæta þangað og taka mér stöðu í góðri fjarlægð.
[MP3] Ultra Mega Techno Bandið Stefán - Story of a Star
[Ultra Mega Techno Bandið Stefán á Myspace]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.