11.4.2008 | 00:17
Hremmingar í flugstöðinni
Við frúin eignuðumst litla dóttur í ágúst síðastliðnum. Litla skinnið fékk hið stórfenglega nafn Ragnheiður Kolfinna.
Nú ber svo við að í bríaríi (og í góðærinu) ákváðum við að skella okkur til London í nokkra daga og taka stúlkuna með. Flugið er eitthvað um 4 klst og barnið ekki á brjósti lengur. Það þarf því að taka með pela og/eða krukkumat af einhverju tagi sem væri nú ekki í frásögur færandi, nema hvað reglur banna nú orðið allan andskotann í handfarangri.
Samkvæmt upplýsingum frá Iceland Express þá megum við taka barnafæði með okkur í vélina að því gefnu að við smökkum á herlegheitunum í viðurvist öryggisvarða einhverskonar. Líklegast þarf ég því, um leið og ég set jakkann minn, táfýluskóna, beltið og handfarangur í gegnumlýsingu að taka gúlsopa af þurrmjólk í vitna viðurvist, og moka jafnvel í mig Gerber barnamat úr krukku.
Sannast sagna hlakkar mig ekki til. Nú, ef þetta er ávaxtamauk einhversskonar þá sleppur það nú eflaust. Þurrmjólkin hinsvegar lyktar ekkert sérstaklega vel, og þótt barnið svolgri þetta í sig þá verður þetta þrekraun hin mesta fyrir mig.
En fjandakornið, ég hélt það væri verið að gera at í frúnni þegar hún sagði mér þetta. Þarf maður virkilega að drekka þurrmjólkina sjálfur?! Er hún kannski að grilla í mér?
Þar sem þetta er nú einu sinni MP3 blogg þá ákvað ég að skutla hérna með einhverju fallegu lagi um börn, og í fljótu bragði fann ég bara "The Sweetest Child" með The Fat Tulips. Og þetta er voðalega fallegt lag, textinn er bara frekar nöturlegur eitthvað. Þetta er hinsvegar voðalega Twee eitthvað!
[MP3] The Fat Tulips - The Sweetest Child
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.