27.6.2008 | 17:18
[MP3] The Fall
Fyrst ég gubbaði því útúr mér að These New Puritans minntu mig á The Fall, þá er nú ekki úr vegi að grafa eitthvað upp með þeirri eðal sveit. [MP3] The Fall - How I Wrote Elastic Man Forsprakki sveitarinnar, Mark E. Smith, er núna 51 árs gamall, en lítur út fyrir að vera svona áttræður að minnsta kosti. The Fall var stofnuð 1976 og er enn að.Fyrsta platan þeirra sem ég eignaðist er I Am Kurious Oranj frá 1988, en hún innihélt tónlist sem hljómsveitin samdi fyrir samnefnda ballett sýningu, þar sem þau einmitt spiluðu lögin live á sviðinu með dönsurunum. Hér er myndband við lag af plötunni, "Big New Prinz", sem er alveg hreint frábært lag, og sannar að ekki þarf að flækja hlutina mikið, lagið er bara einn kafli. Það hefur löngum verið stormasamt í kringum Mark, og erfitt að spila með honum. Ég sá sveitina spila hér á landi fyrir nokkrum árum, bæði í Austurbæ og á Grandrokk. Nær allan tímann var hann að fikta í græjum félaga sinna, lækka eða hækka í mögnurum, og fjarlægja hljóðnema úr trommusettinu. Hinir tóku þessu með stóískri ró, væntanlega vanir þessum kenjum, og breyttu stillingum til baka þegar hann sneri baki í þá. Hin stóíska ró hefur þó ekki alltaf einkennt tónleikana. Uppúr sauð á túr um Ameríku árið 1998 þegar slagsmál brutust út á sviðinu þegar trommuleikarinn Karl Burns gafst upp og hreinlega lamdi söngvarann duttlungafulla. Í það skiptið hætti Burns, sem og bassaleikarinn Steve Hanley og gítarleikarinn Tommy Crooks. Slagsmálin má líta í heimildarmyndinni The Wonderful and Frightening World of Mark E. Smith, sem sjá má á Youtube hér (hluti 8 af 9). Mark E. Smith var nú nokkuð laglegur gæji á árum áður: En svona lítur hann út í dag blessaður kallinn: Það er alls ekki verra að kíkja líka á lagið "Wings": |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.