15.7.2008 | 17:45
[MP3] Godflesh
Eflaust hefur auglýsingaherferð Vodafone, Skítt með kerfið, ekki farið framhjá mörgum, en þar er gert út á ímynd pönksins. Lítt áberandi smáatriði í heilsíðuauglýsingu Vodafone manna er hinsvegar barmmerki með orðinu Godflesh. Godflesh var hinsvegar, eins og allir vita, ekki pönkhljómsveit heldur lék hún "industrial metal". Ég átti mitt industrial metal tímabil á yngri árum og eignaðist þá plötur með Ministry, Skinny Puppy og plötuna Streetcleaner með Godflesh, sem einstaka sinnum ratar á fóninn hjá mér enn. Godflesh var stofnuð árið 1988 af fyrrum meðlim Napalm Death, Justin nokkrum Broadrick. Sveitin var undir áhrifum frá Swans, Killing Joke, Big Black og Throbbing Gristle svo nokkrar séu nefndar. Paul Raven úr Killing Joke og Ministry gekk síðar til liðs við sveitina en hún hefur einnig skartað fyrrum meðlimum Swans, Guns 'n Roses og Loop (hver man eftir Loop?). Ennfremur hefur Justin unnið með skallapoppurunum Sunn O)))). Árið 2002 lagði Godflesh upp laupana þegar Justin fékk taugaáfall. Hann jafnaði sig þó innan skamms og stofnaði sveit sem enn starfar og ber heitið Jesu, en mun ekki spila kristilegt rokk þrátt fyrir nafngiftina. Streetcleaner er þung plata í meira lagi, og ekki hugsuð fyrir rómantískt kvöld með elskunni þinni, nema hugmyndir manns um rómantík innihaldi tjah, króka og keðjur af ýmsu tagi. Hlýðum á tóndæmi: [MP3] Godflesh - Christbait Rising Og hvað er Justin að bralla núna? Shoegaze metal pop! [MP3] Jesu - Conqueror |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.