4.8.2008 | 00:10
[MP3] A Place to Bury Strangers
Mér til mikillar ánægju þá sofnaði ég yfir tónleikum Amy Winehouse í sjónvarpinu áðan, en í þeirri dömu hafði ég aldrei heyrt áður, bara lesið um ævintýri hennar á visir.is. Það er leitt að fjölmiðlar sjá sér ekki fært að fjalla meira um áhugaverða tónlistarmenn sem halda brókunum uppi, eins og t.d. Oliver Ackerman og félaga í A Place to Bury Strangers. Sveitin hefur verið kölluð háværasta rokksveit New York, og kemur ekki á óvart að fyrirmyndir þeirra eru m.a. Jesus and Mary Chain. "The most ear-shatteringly loud garage/shoegaze band you'll ever hear" sagði Washington Post um bandið. Þeir hafa vakið verðskuldaða athygli undanfarið, túrað vítt og breytt og selt plötur í bílförmum. Mér til mikillar undrunar komst sjálf-titluð plata þeirra á topp lista tónlistarskríbenta hér heima yfir plötur ársins 2007, en hingað til hafa svona læti ekki átt upp á pallborðið í fjölmiðlum hér heima. Það tóku reyndar fáir eftir bandinu fyrr en vefritið Pitchforkmedia.com fjallaði lofsamlega um frumburð þeirra. A Place to Bury Strangers var stofnuð úr rústum sveitarinnar Skywave, eins og annað frábært band sem ég hef ritað um hér áður, Ceremony. Mér hefur alltaf fundist Ceremony betra band, en hingað til hefur ekki borið jafn mikið á þeim. Hlustum aðeins á eyrnamergshreinsandi konfekt með A Place to Bury Strangers: [MP3] A Place to Bury Strangers - My Weakness Og af því ég held svo mikið upp á systursveit þeirra, Ceremony, fáum eitt lag með þeim líka, geðveikt lag sem heitir "Old". Takið eftir stórkostlegum lokakaflanum og stigmagnandi hávaðanum sem byrjar ca 3 mín 40 sek, og hækkið í botn. [MP3] Ceremony - Old Þess má geta að Oliver Ackerman smíðar sína eigin effecta pedala og selur undir merkjum Death by Audio. Þar má finna hluti eins og White Noise Generator og annað sem mér leikur forvitni á að vita hvað er; Pink Noise Generator. Þar er líka að finna "Total Sonic Annihilation" og "Supersonic Fuzz Gun". Hljómar spennandi. Svo er að sjá að hann hafi selt pedala til U2 og Nine Inch Nails, og svo skemmtilega vill til að APTBS er að fara að spila með síðarnefnda bandinu, og fleiri skemmtilegum sveitum s.s. Shellac og Dandy Warhols. |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.