25.10.2008 | 20:10
[MP3] Icecross
Eftir að hafa verið í heila viku að velta sér uppúr nýrri og spennandi tónlist á Iceland Airwaves, þá er ekki úr vegi að slíta sig aðeins frá hringiðunni og líta til forfeðra vorra. Meðlimir Icecross gætu allir verið pabbar mínir enda kom fyrsta og eina skífa sveitarinnar út árið sem ég fæddist, 1973. Hún þykir nú hið mesta gersemi og er illfáanleg nema fyrir fúlgur fjár. Eftir dálitla leit á google sá ég að einhver hafði selt eintak á 500 evrur, og það er nú ekki lítill peningur í dag. Sjálfur á ég eintak af plötunni sem ég hef nú hugsað mér að láta á eitthvað gott heimili, fyrir rétta upphæð. Það hefur hinsvegar reynst þrautin þyngri í gegnum tíðina að fá hana verðmetna. Einhverjir vitleysingar munu nefninlega hafa haft fyrir því að endurpressa hana í upprunalegri mynd, árið 2002. Það mun því vera á fárra færi að sjá hvort platan er orginallinn eða endurpressunin. Aukinheldur var gefin út sjóræningjaútgáfa á CD líklegast árið 2006, en þá með rauðum lit í stað hvíts. Samkvæmt heimasíðu sveitarinnar sem nýlega fór í loftið mun þó vera væntanlegur geisladiskur með gömlu og nýlegu efni, sem er tilhlökkunarefni. Platan er nefninlega skrambi góð og ég væri alls ekki að selja hana nema í ýtrustu neyð. Áhugafólk um þungarokk virðast sérdeilis hrifið af tónlistinni og ekki síður umslaginu, og það má líklega til sanns vegar færa að tónlistin er talsvert drungalegri og þyngri en gekk og gerðist fyrir 35 árum síðan. Sveitina skipuðu Axel Einarsson, Ómar Óskarsson og Ásgeir nokkur Óskarsson sem síðar hefur stimplað sig inn sem einn fjölhæfasti og virkasti trommari landsins, meðal annars í Þursaflokknum og Stuðmönnum. Axel hafði áður verið í Persónu og Tilveru, og stofnaði síðar Deildarbungubræður og Landshornaflakkara auk þess að vera um skeið í hljómsveit með Shady Owens úti í Bandaríkjunum. Hann rekur nú stúdíóið Stöðin auk þess sem hann gefur út tónlist fyrir yngri kynslóðina, t.d. Sönglögin í Leikskólanum. Ómar kom úr Pops og Sókrates og var síðar í Pelikan, og fann síðan Jesús, sem er dulítið kómískt í ljósi textans í laginu sem hér fylgir. Þessa hljóðskrá fann ég á erlendri vefsíðu og vona að enginn setji sig upp á móti því að hún birtist hér líka. Umslagið hannaði Jón Erlings á einni nóttu, þegar átti að pressa plötuna og það uppgötvaðist að umslagið vantaði. Teikningin framan á umslaginu er hugsuð þannig að drekinn er foringinn Axel, beinagrindin er Ómar og Ásgeir er að krafla sig upp úr jörðinni við fætur þeirra en sést bara í höndina á honum ennþá. Icecross-inn er svo á milli þeirra. Lagið sem hér fær að hljóma er "Jesus Freaks" sem einmitt vakti mikla kátínu mína á sínum tíma, og gerir enn, fyrir alveg hreint óheyrilegt magn af trommubreikum. [MP3] Icecross - Jesus Freaks Viðbót 25.10: Fann annað lag með sveitinni, "Nightmare". Það má hlýða á hér: http://blog.wfmu.org/freeform/2007/02/mushroom_metal_.html Leiðrétting: Ég hafði skrifað Ásgeir sem Tómasson, en hann er með réttu Óskarsson. |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.