Girls Rock!

blubirdHeimildarmyndin Girls Rock! er á dagskrá kvikmyndahátíðar þessa dagana. Þetta er eflaust áhugaverð ræma og ég er að hugsa um að fara með krakkana mína á hana, þótt það kosti morðfjár. Í myndinni er fylgst með stúlkum í "rokkbúðum" í Portland, Oregon. þar fá stúlkurnar að spreyta sig á það hljóðfæri sem þær vilja, læra á það, semja lög og koma fram á tónleikum. Ekki síst er þeim kennt að staðalímyndir kvenna í fjölmiðlum eru ekki sannleikanum samkvæmar og að best er að vera bara maður sjálfur.

Ég komst að því fyrir ekki löngu að gítarleikari í einu uppáhaldsbandinu mínu, Kim Baxter í All Girl Summer Fun Band, kennir þarna í rokk kampinum. Einhverntíman tók ég viðtal við hana fyrir vefritið indie-mp3.co.uk, og í lokin átti hún svo að skora á annað band í næsta viðtal. Þannig komst ég í kynni við Úna og Katie sem saman mynda bandið Blübird.

Hljómsveitina stofnuðu þær stöllur einmitt í Rock and Roll Camp for Girls sumarið 2005. Báðar lærðu þær á hljóðfærin þar, Úna á gítar og Katie á trommur, báðar voru þær þá 11 ára. Þær hafa vakið nokkra eftirtekt fyrir pólitíska texta og lagið "Global Warming" hefur farið víða. Núna í sumar gáfu þær út frumraun sína, geisladiskinn We Are Birds.

Það er nokkuð skondið að hlusta á þær, þær kunna ekkert rosalega vel á hljóðfærin en eins og Einar Örn sagði, það skiptir ekki máli hvað þú getur heldur hvað þú gerir. Blübird er lifandi sönnun þess að rokkbúðirnar virka, núna tveimur árum seinna eru þær þegar búnar að gefa út disk og koma fram á fjölmörgum tónleikum. Það er mikið pönk í þeim, þær hika ekki við að gefa Bush fingurinn í textum sínum og gagnrýna stjórnvöld. Hlustið bara:

MP3: Blübird - Global Warming
MP3: Blübird - The Way You Thought It Was

Hérna syngur og leikur Úna svo ein á báti lagið "Little Yellow Lemons" eftir Cheralee Dillon. Maður heyrir það alveg að þarna er framtíðar músíkant á ferð.

MP3: Úna - Little Yellow Lemons

Lesa má viðtal mitt við þær í heild sinni hér.

[Rock and Roll Camp for Girls]
[Rock and Roll Camp for Girls á Myspace]

Trailer fyrir myndina. Virðist vera þrusustuð. Ég vildi það væri svona Rock'n'Roll kampur hér á landi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það kostar ekkert morðfjár, þú ert að sjá gæða myndir sem allmennt eru ekki sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum fyrir venjulegt verð. Það er ekki morðfjár. Svo getur þú líka keypt klipikort fyrir 4500 kall, sem virkar á 8 myndir. Þá kostar rúman 550 kall á mynd.

Magnús Jónsson (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 11:15

2 Smámynd: Magnús Axelsson

Það má svosem færa rök fyrir því að þetta sé góður díll. Hinsvegar finnst mér venjulegt verð vera alltof hátt verð. Ég hef kannski verið sérlega óheppinn í mínum kvikmyndahússferðum, en oftast virðist eitthvað fara úrskeiðis, texta vantar eða hann er úr synch við myndina, sundum sést textinn varla. Ekki er dregið alveg frá bíótjaldinu, það gleymist að setja myndina af stað eftir hlé, fókusinn er í rugli, og maður situr undir 20 mínútum af auglýsingum áður en myndin byrjar. Svona má lengi telja. Svo borgar maður meira fyrir þann lúxus að hafa færri auglýsingar og ekkert hlé á sýningum Græna Ljóssins.

Þegar ég er svo að fara með alla fjölskylduna í bíó þá kostar pakkinn orðið 5x900 kr, bara aðgangseyrinn. Ég nýt þess virkilega að sitja í dimmum salnum í þægilegu sæti og horfa á flennistórt tjaldið þegar allt gengur upp. Nú finnst mér bara að í meirihluta bíóferða minna fer eitthvað úrskeiðis og ég veigra mér við að borga 900 kr fyrir bíóferð sem gæti orðið sárustu vonbrigði.

Þessvegna finnst mér þetta fokdýrt, þ.e. að fara í bíó yfirhöfuð.  Hinsvegar áskotnaðist mér svo klippikort eftir þessa færslu mína og ég er því ögn rólegri og sáttari við að bíóferðin verði hugsanlega hörmuleg.

Magnús Axelsson, 29.9.2007 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband