[MP3] Andhéri

andheriÞað er agalega erfitt að afla sér upplýsinga um hljómsveitina Andhéra á internetinu. Nær allar niðurstöður fjalla um úthverfi höfuðborgar Indlands, en hverfið heitir einmitt Andheri. Satt best að segja þá er ástandið það slæmt að það eina gáfulega sem er til um hljómsveitina á netinu er skrifað af sjálfum mér, og það kann varla góðri lukku að stýra.

Platan Fallegir Ósigrar með Andhéra sigldi algerlega undir radarinn minn þegar hún kom út árið 1997. Hún var ein nokkurra platna sem komu út í útgáfuröð Smekkleysu, "Skært Lúðrar Hljóma".  Allar plöturnar voru nær því að vera EP plötur heldur en eiginlegar breiðskífur, með 7-9 lögum. Af öðrum skífum í þeirri seríu má nefna t.d. Von með Sigur Rós sem og plötur með Kvartett Ó. Jónsson og Grjóna, Soðinni Fiðlu og Á Túr.

Andhéri átti einnig lag í þeirri arfaslöku kvikmynd Blossi/810551.

Platan fór alveg framhjá mér á sínum tíma, og það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar konan mín kom heim úr vinnu hjá RÚV með nokkra diska sem átti að farga, að hún bættist í safnið mitt. Nokkrum mánuðum síðar var platan komin á stanslausa endurtekningu hjá mér, og nú er svo komið að ég álít hana eina bestu plötu sem komið hefur út hér á landi. Athyglisvert er hinsvegar að hún er ekki á lista yfir 100 bestu plöturnar í rokk riti Gunnars Hjálmarssonar, Eru ekki allir í stuði?

Andhéri innihélt Gunnar Tynes og Örvar Þóreyjarson sem árið eftir stofnuðu hljómsveitina Múm. Númi Thomasson barði trommur en hann hefur undanfarið verið titlaður Tour Chef hjá Björk, og opnaði nýlega restaurant sem ég man ekki hvað heitir, en var nýlega skrifað um í einhverju dagblaðinu. Hljómsveitin átti upp á pallborðið hjá popp spekúlöntum þá, og var platan tilnefnd sem plata ársins árið 1997, og Gunnar var tilnefndur sem bassaleikari ársins, og hljómborðsleikkonan, Guðfinna Mjöll, var tilnefnd sem hljómborðsleikari ársins. Hún rekur nú, skv. mínum heimildum, "matarhönnunarfyritæki". Platan átti í vök að verjast og tapaði fyrir Homogenic plötu Bjarkar, þótt hún sé að mörgu leiti mun skemmtilegri.

Ég mæli alveg eindregið með þessari ljómandi fínu plötu. Hvort hún er einhversstaðar fáanleg veit ég hinsvegar ekki, eflaust eru staflar af henni á lager hjá Smekkleysu.

Hérna er lagið "Plútó" sem var áður hægt að hala niður af vefsíðu Smekkleysu, áður en síðunni var umturnað með öllu og breytt í vefverslun. Lagið fjallar um (fyrrverandi) reikistjörnuna Plútó sem svífur um himingeiminn í bullandi sjálfsvorkunn með hendur fyrir augum.

[MP3] Andhéri - Plútó

[Versla plötuna á MP3 formati frá Smekkleysu]

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband