Færsluflokkur: Tónlist

Hremmingar í flugstöðinni

21 089Við frúin eignuðumst litla dóttur í ágúst síðastliðnum. Litla skinnið fékk hið stórfenglega nafn Ragnheiður Kolfinna.

Nú ber svo við að í bríaríi (og í góðærinu) ákváðum við að skella okkur til London í nokkra daga og taka stúlkuna með. Flugið er eitthvað um 4 klst og barnið ekki á brjósti lengur. Það þarf því að taka með pela og/eða krukkumat af einhverju tagi sem væri nú ekki í frásögur færandi, nema hvað reglur banna nú orðið allan andskotann í handfarangri.

Samkvæmt upplýsingum frá Iceland Express þá megum við taka barnafæði með okkur í vélina að því gefnu að við smökkum á herlegheitunum í viðurvist öryggisvarða einhverskonar. Líklegast þarf ég því, um leið og ég set jakkann minn, táfýluskóna, beltið og handfarangur í gegnumlýsingu að taka gúlsopa af þurrmjólk í vitna viðurvist, og moka jafnvel í mig Gerber barnamat úr krukku.

Sannast sagna hlakkar mig ekki til. Nú, ef þetta er ávaxtamauk einhversskonar þá sleppur það nú eflaust. Þurrmjólkin hinsvegar lyktar ekkert sérstaklega vel, og þótt barnið svolgri þetta í sig þá verður þetta þrekraun hin mesta fyrir mig.

En fjandakornið, ég hélt það væri verið að gera at í frúnni þegar hún sagði mér þetta. Þarf maður virkilega að drekka þurrmjólkina sjálfur?! Er hún kannski að grilla í mér?

Þar sem þetta er nú einu sinni MP3 blogg þá ákvað ég að skutla hérna með einhverju fallegu lagi um börn, og í fljótu bragði fann ég bara "The Sweetest Child" með The Fat Tulips. Og þetta er voðalega fallegt lag, textinn er bara frekar nöturlegur eitthvað. Þetta er hinsvegar voðalega Twee eitthvað!

[MP3] The Fat Tulips - The Sweetest Child


[MP3] Twee Tími - Lucky Soul

lucky

Nýjasta uppáhaldið mitt er Lucky Soul frá Greenwich í Bretalandi. Bandið var stofnað síðla árs 2004 og stofnaði sitt eigið útgáfufyrirtæki til að gefa út plötur sínar, Ruffa Lane. Fyrsti singullinn þeirra, My Brittle Heart, var valinn singull vikunnar af Guardian, og síðar sama ár kom út annar singull með stórgóðu lagi, "Lips are unhappy". Fyrsta stóra platan kom út 2007 og fékk frábæra dóma. Sveitin sækir nokkur áhrif m.a. í Motown stefnuna, og reyndar hélt ég, fyrst þegar ég heyrði "Lips are unhappy" að þetta væri cover lag af Diana Ross and the Supremes. Þetta lag grípur nefninlega við fyrstu hlustun og hljómar alveg gífurlega kunnuglega. Dæmið bara sjálf:

[MP3] Lucky Soul - Lips are unhappy (linkur lagaður 13.6.2008)

[Lucky Soul á Myspace]


[MP3] Jimi Hendrix makes love to Marilyn's remains

butt

Ahhh.. Butthole Surfers...! Næmni fyrir fínni blæbrigðum tilverunnar var ekki beint þeirra sterkasta hlið. Þessi ágæta hljómsveit ól mig mikið til upp á unglingsárunum, ég hlýt að hafa heyrt í þeim á Útvarpi Rót einhverntíman, og fann svo þriðju breiðskífu þeirra, Hairway to Steven, í Gramminu. Það hefur eflaust verið 1989.

Þá um haustið tók hljómsveitin mín, California Nestbox, lag þeirra, "Bar-B-Q-Pope" á tónleikum í MH þar sem hitað var upp fyrir Ham. Doddi í Trabant var þá á trommum, Atli Jósepsson líffræðingur á gítar, ég á bassa, gjörsamlega lamaður af skelfingu yfir að standa á sviði, og Henrý Alexander Henrýsson, nú doktor í heimspeki, lék af miklu listfengi á túbu, íklæddur brjóstahaldara. Ári seinna var fólk útí bæ enn að tala um þessa tónleika, þótt eflaust hafi allir gleymt þeim núna.

Fíngerðu og viðkvæmu sálirnar í Butthole Surfers stofnuðu sveitina snemma á áttunda áratugnum í San Antonio í Texas. Þeir vöktu fljótt mikla athygli fyrir líflega tónleika, svo ekki sé meira sagt, naktir dansarar, gerviblóðsúthellingar sem og heilbrigður skammtur af ofbeldi ýmisskonar einkenndi sviðsframkomu þeirra. Oftar en ekki var kveikt í einhverju og kviknaði gjarnan í þeim sjálfum í leiðinni. Sveitin náði þó ekki beint vinsældum fyrr en 1996 þegar lagið "Pepper" sló í gegn.

Talsvert ítarlega sögu sveitarinnar má lesa á Wikipedia, ég fer ekki nánar út í það núna. Ég má hinsvegar eflaust prísa mig sælan fyrir að hafa ekki farið á tónleika með þeim meðan ég var óharðnaður unglingur.

Eldri plötur sveitarinnar, s.s. Rembrandt Pussyhorse, Locust Abortion Technician og Hairway to Steven voru mest í spilaranum hjá mér á sínum tíma. Eins og gengur og gerist dofnaði svo áhuginn og tók steininn úr þegar myndband með þeim var spilað í sjónvarpinu. Það var þá ekki nógu underground lengur. En ég mun alltaf eiga góðar minningar tengdar þessum lögum:

[MP3] Butthole Surfers - Bar-B-Q-Pope (af fyrstu plötunni, Butthole Surfers, 1983)
[MP3] Butthole Surfers - The Shah Sleeps in Lee Harvey's Grave (af sömu skífu)
[MP3] Butthole Surfers - Lady Sniff (af Psychic... Powerless Another Man&#39;s Sac, 1984) <--- Varað við búkhljóðum!
[MP3] Butthole Surfers - Mark says allright (af Rembrandt Pussyhorse, 1986)
[MP3] Butthole Surfers - 22 going on 23 (af Locust Abortion Technician, 1987) <---- Sérstaklega mælt með!!
[MP3] Butthole Surfers - I saw an x-ray of a girl passing gas (af Hairway to Steven, 1988)

Hvergi stendur að sveitin sé hætt störfum, en seinasta plata þeirra kom út fyrir 6 árum síðan.

Mörg fleiri MP3 lög má finna á heimasíðu sveitarinnar.

Hérna fylgir svo með textinn við "The Shah Sleeps in Lee Harvey&#39;s Grave". Shah mun víst þýða: "Used formerly as a title for the hereditary monarch of Iran."

There&#39;s a time to fuck and a time to crave,
But the Shah sleeps in Lee Harvey&#39;s Grave!
There&#39;s a time to shit and a time for God,
The last shit that I took was pretty fuckin&#39; odd!
There&#39;s a time for drugs and a time to be sane,
Jimi Hendrix makes love to Marilyn&#39;s remains!
There&#39;s a time to live and a time to die,
I smoke Elvis Presley&#39;s toenails when I wanna get high!
There&#39;s a time to fuck and a time to crave,
But the Shah sleeps in Lee Harvey&#39;s Grave!
Yeah, I am the ultimate God!
Don&#39;t even think of looking with your naked eye, motherfucker.
SHUT UP!

 Og myndbandið við lagið sem meikaði það, "Pepper":

 


[MP3] The Manhattan Love Suicides

manhattanlove

Ég rakst núna áðan á dóm á Drowned in Sound um tónleika með The Pains of Being Pure at Heart, sem ég hef ritað um hér áður. Skemmst er frá því að segja að þau fengu alveg glimrandi dóma þar. Tónleikarnir sem um ræðir hafa greinilega verið draumatónleikarnir mínir því þar kom einnig fram Horowitz, sem ég hef einmitt minnst á áður líka, og The Manhattan Love Suicides sem er nýjasta buzzið frá Bretlandi. Þau mætti segja að séu vinahljómsveit Pains, saman hafa sveitirnar túrað um Bretland og rokkað saman á nokkrum giggum í Bandaríkjunum líka.

Ég get alveg fullyrt það að Manhattan Love Suicides er geðveik hljómsveit. Hávaðinn er alveg með endemum, og þau ku spila eins og hvirfilbylur, öllu er lokið eftir svona kortér til 20 mínútur. Eins og aðrar sveitir sem ég held uppá þá sækja þau mikið í smiðju Jesus and Mary Chain og My Bloody Valentine, sem og 60&#39;s stelpuhljómsveitir s.s. Shangri Las og The Ronettes.

Hérna er Drowned in Sound review um gigg þessara þriggja sveita.

Hlýðum nú á tóndæmi. Persónulega mæli ég með "You&#39;ll never get that guy".

[MP3] The Manhattan Love Suicides - You&#39;ll never get that guy
[MP3] The Manhattan Love Suicides - Suzy Jones
[MP3] The Manhattan Love Suicides - Head over heels
[MP3] The Manhattan Love Suicides - Last stand
[MP3] The Manhattan Love Suicides - Kick it back

Og vídeó við lagið "Keep it coming":

 


[MP3] The Magnetic Fields

MagneticField_webThe Magnetic Fields byrjaði sem sólóverkefni Stephin Merrits árið 1990, en ári síðar var hann ásamt vinkonu sinni Claudiu búinn að setja saman live band.

Stephin þykir drumbslegur í meira lagi á sviði, þurrpumpulegur væri jafnvel gott orð yfir það. Sagt er að honum sé illa við hávaða, spili alltaf með eyrnatappa og haldi fyrir eyrun þegar klappað er fyrir sveitinni. Það skýtur því svoldið skökku við að seinasta plata sveitarinnar heitir Distortion, og inniheldur eins og nafnið gefur til kynna, lög þar sem hávaði og bjagaður gítar er í forgrunni.

Platan a tarna er heldur undarleg á að hlýða, hún er róleg og frekar drungaleg, og ekki allra. Hún hefur þó vakið mikla athygli á sveitinni sem var þó talsverð fyrir, en þreföld plata þeirra frá 1999, 69 Love Songs, þykir mikið meistaraverk. Á þeirri skífu var mikið notast við hljóðfæri eins og banjó, harmónikku, ukulele, selló, mandólín, flautu og fleira í þeim dúrnum, meðan á Distortion er notast við hefðbundin rokk hljóðfæri, þótt seint teljist þessi plata hefðbundin rokk plata. Ég botnaði ekkert í hvað var í gangi fyrst þegar ég hlustaði á hana, en hún vinnur mikið á við ítrekaða hlustun.

Ég gróf upp eftirfarandi MP3 á veraldarvefnum, öll af nýju skífunni. Mæli með að þið tékkið á þessu.  

[MP3] The Magnetic Fields - Please Stop Dancing
[MP3] The Magnetic Fields - California Girls
[MP3] The Magnetic Fields - Too Drunk To Dream


[MP3] Misery Index á Organ á fimmtudag

miseryindexÞað lítur út fyrir að mikið stuð verði á Organ á fimmtudaginn, þá kemur frá Bandaríkjunum dauðarokksveitin Misery Index og þeytir flösu.

Ég hef lengi haft lúmskt gaman af dauðarokki, eða Grindcore svokölluðu. Það er ekki víst að sannir metal aðdáendur deili þessum áhuga á sama hátt og ég. Mér finnst nefninlega óstjórnlega fyndið þegar double kickerinn fer af stað eins og hríðskotabyssa og söngvarinn fer að rymja úr sér innyflunum. Ég skil líka ekkert í því að vera með há pólitíska texta og merkilegan boðskap, en svo er engin leið að skilja eitt einasta orð sem sungið er. En það er yfirleitt þrusugaman á svona tónleikum.

Í þessum geiranum er ég reyndar hrifnastur af hinum íslensku Bootlegs, og hef haldið upp á þá síðan WC Monster platan kom út hjá Smekkleysu hér fyrir einum 20 árum síðan. Misery Index er vafalítið talsvert háværari og hraðari. Sveitin var stofnuð í Baltimore árið 2001 og hefur gefið út slatta af plötum. Kjarni sveitarinnar virðist samanstanda af fyrrum meðlimum Dying Fetus ef það segir einhverjum eitthvað. Maður verður reyndar hálf dofinn eftir nokkar mínútur af svona látum, en hérna er myndband og MP3:

[MP3] Misery Index - Unmarked Graves  

Misery Index "Conquistadores"

[MP3] Cut Copy

cutcopy

Cut Copy er sveit frá Melbourne í Ástralíu sem er alveg óhætt að fara að æsa sig yfir. Í fyrradag kom önnur breiðskífa þeirra, In Ghost Colours, út, en sú fyrri kom út 2004 og bar heitið Bright Like Neon Love. Sveitin byrjaði sem sóló verkefni Dan nokkurs Whitford árið 2001, en 2003 fékk hann fleiri meðlimi til liðs við sig, og hefur síðan túrað víðsvegar um heiminn m.a. með Franz Ferdinand, Junior Senior, Bloc Party og síðast en ekki síst Daft Punk, en það má merkja talsverð áhrif frá síðastnefndu sveitinni í tónlist Cut Copy.

Einhverjar viðræður hafa svo verið við umboðsmann sveitarinnar um að hún kíki hugsanlega hingað til lands síðar á árinu, en ég sel það nú ekki dýrar en ég keypti það.

[MP3] Cut Copy - So Haunted

Myndband við lagið "Lights & Music":

 

[Cut Copy á Myspace]


[MP3] Club 8 aftur

club82

Ég fer að verða eins og biluð plata í þessum póstum mínum, skrifandi um sömu böndin aftur og aftur. En síðan ég ritaði seinast um Club 8 þá ákvað Labrador útgáfan að endurútgefa fjórar af fimm eldri plötum sveitarinnar, og ég lét til leiðast og eyddi peningum, sem hvort sem er voru fastir inni á Paypal reikningi, í þessar skífur. Ég sé ekki eftir því, allar eru þær stórgóðar, og einnig hef ég síðan þá fundið 5 önnur lög á netinu sem ekki fylgdu með seinasta pósti.

Ég varð þess fljótt áskynja að þrátt fyrir að tónlist Club 8 sé oft á tíðum hresst sólskinspopp, þá býr að baki angurværð og depurð sem einna best kemur fram í textunum, en þeir fjalla ósjaldan um horfnar ástir, það að verða gamall og glata æskuljómanum, nú eða einsemdina sem felst í sambandi fólks sem á ekkert sameiginlegt og stendur bara í stað. Einhver gagnrýnandinn kallaði þessa tónlist Valíum Diskó, og annar komst svona skemmtilega að orði: "If this is sunshine pop, then it’s for a summer experienced through a dislocating haze of anti-depressants".

Allavegana, ég mæli hiklaust með þessum plötum, allar innihalda þessar endurútgáfur glás af aukalögum, remixum og hvaðeina, og ólíkt mörgum slíkum útgáfum þá gefa aukalögin hinum ekkert eftir. Hér eru svo fleiri lög handa ykkur:

[MP3] Club 8 - Heaven (af The boy who couldn&#39;t stop dreaming, 2007)
[MP3] Club 8 - Saturday Night Engine (af Strangely beautiful, 2003 )
[MP3] Club 8 - Love in December (af Club 8, 2001)
[MP3] Club 8 - Jesus walk with me (Jimahl Remix af lagi á The boy who couldn&#39;t stop dreaming)
[MP3] Club 8 - Everlasting Love (af The friend I once had, 1998)


[MP3] The Pains of Being Pure at Heart

pains_1

Einhverjir húmoristar mæltu með að þessi hljómsveit skipti um nafn hið snarasta. Nafnið langa er þó ekki að koma í veg fyrir vaxandi áhuga á bandinu hvarvetna, en sveitin lenti hér á landi þann 1sta mars og spilaði sama kvöld á Organ ásamt Lada Sport og <3 Svanhvít, við góðar undirtektir.

Hljómsveitin millilenti hér á leið heim til New York eftir túr um Bretland, þar sem var uppselt á flesta tónleika þeirra. Prógrammið þeirra var heldur stutt hérna sem skýrist af því að trommarinn þeirra þurfti að halda ferðinni áfram, og í hans stað fengu þau vin sinn sem var þeim samferða til að fylla upp í skarðið. Væntanlega er hann vanur trommari líka því hann stóð sig með prýði, en hann náði ekki að læra öll lögin með svona stuttum fyrirvara.

Sveitin var stofnuð fyrir eiginlega akkúrat ári síðan. Meðlimir hennar hlustuðu mikið á bresku sveitina Manhattan Love Suicides, og örlögin höguðu því þannig að sú sveit var á ferðalagi í NYC akkúrat þegar Peggi Wang átti afmæli. Þau slógu til mikillar veislu, buðu Manhattan Love Suicides að spila þar, og stofnuðu Pains til að hita upp. Restin er svo skrifuð í sögubækur. Með sveitunum tókst mikill vinskapur og Pains túruðu um Bretland með Manhattan Love Suicides núna síðast, og sú síðarnefnda er nú á leið til NYC að túra með Pains.

Hér eru nokkur lög sem ég fann hist og her með The Pains of Being Pure at Heart. Lagið "A teenager in love" er talsvert ólíkt hinum, mun meira poppað, og hljómar svo kunnuglega að ég taldi fyrst að þetta væri "ábreiða". Kannast einhver annar við þetta lag?

[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - Orchard of my eye
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - This love is fucking right
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - The pains of being pure at heart
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - Doing all the things that wouldn&#39;t make your parents proud
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - A teenager in love

Hér er myndband af sveitinni að spila "Doing all the things..." á Organ 1sta Mars:


[MP3] Twee Tími - Dýrðin

dyrdin_airwaves_2006

Það fóru margir flausturslega með textabrot á uppskeruhátíð tónlistarmanna í gærkvöldi. Pínlegt fannst mér að horfa á þetta á köflum, sumir eins og vélmenni að lesa af textavélinni. Ég saknaði þess að heyra ekki íðilfagurt textabrot með Dýrðinni eins og þetta:

"Ég hitti strák um daginn
hann er alveg rosalega kjút
ég féll strax fyrir honum
og núna erum við saman"
(úr laginu "Brottnumin")

Eða þessa glimrandi snilld hérna:

"Ég vil fá þig aftur
ég vil bímast burt með þér
inn í stjörnuþokur
eitthvert þar sem enginn sér
eignast fullt af börnum
skipt&#39;um fóton bleyjur
fara fífldjörf
þar sem enginn hefur fæti stigið fyrr"

Við skulum ný hlýða á þetta ágæta lag sem fjallar um ástir jarðarstúlku og hins hálf-vúlkanska Spock, með eina núverandi íslenska bandinu sem kemst nálægt því að vera "Twee":

[MP3] Dýrðin - Mr. Spock


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband