Færsluflokkur: Tónlist

[MP3] The Sound of Arrows

soundofarrowsNýjasta flaggskipið í flota Labrador útgáfunnar sænsku, er dúettinn The Sound of Arrows.

Þeir félagar Stefan Storm og Oskar Gullstand kynntust í "einum leiðinlegasta bæ Svíþjóðar", Gävle. Þeir byrjuðu að gera tónlist saman síðla árs 2006, en þá fengu þeir þá hugmynd að sampla kórtónlist af Youtube og gera úr því jólalag. Þeir félagar voru ekkert sérstaklega færir í upptökum og kunnu lítið á tölvur, og lagið var því ekki tilbúið fyrr en hálfu ári of seint. Útkoman heppnaðist þó dável og samstarfið hélt áfram.

Frumburður The Sound of Arrows mun koma út hjá Labrador í Maí, en þangað til má smakka aðeins á laginu "Danger!".

[MP3] The Sound of Arrows - Danger!

[The Sound of Arrows á Myspace]


[MP3] Skógláp - Secret Shine

secretshine

Ég má þakka það Fróða heitnum Finnssyni að ég uppgötvaði Shoegaze tónlistarstefnuna almennilega fyrri hluta 10unda áratugarins. Þá bjó hann til handa mér mix-teip með snillingum eins og Ride, Slowdive, My Bloody Valentine og Boo Radleys og þýddi þetta upp á íslenskuna sem Skógláp. Það ku hafa verið penni á NME sem gaf tónlistarstefnunni þetta nafn, og þá í hæðnistón. Þannig var mál með vexti að hljómsveitarmeðlimir, sem áttu það til að vera feimnir í meira lagi, störðu helst niður á skóna sína, gjarnan með hárlubba fyrir andlitinu, meðan þeir þrusuðu út vegg af gítarhávaða sem smurður var effectum s.s. flanger, delay og chorus.

Þrátt fyrir allan hávaðann hefur mér alltaf fundist Shoegaze vera falleg tónlist, það er ekki reiði eða ofbeldi sem einkennir hana, og oftast má undir hávaðaveggnum greina hugljúfar sönglínur, oftar en ekki kvenmannsrödd, en ekki frussandi reiðiöskur eins og tíðkast í flestum öðrum gerðum hávaðarokks.  

Eitt slíkt Skógláps band er Secret Shine frá Bristol í Bretalandi. Bandið var stofnað 1990 af Jamie Gingell og Scott Purnell. Þeir tóku upp demó og sendu á útgáfufyrirtækið Sarah Records sem tók þeim fangandi og gaf út smáskífuna After Years árið 1991. Þeir höfðu þá fengið til liðs við sig bassaleikara, trommara og bróður Scott, Dean, á gítar. Tvær aðrar smáskífur fylgdu í kjölfarið og síðan bættist við söngkonan Kathryn Smith fyrir smáskífuna Loveblind sem afrekaði að komast á UK Indie Top 20 listanum. Fyrsta stóra platan, Untouched, kom út 1993 og eftir nokkar mannabreytingar var henni fylgt eftir með Greater than God EP, en þá henni var trommarinn Tim Morris genginn til liðs við sveitina, þótt hann hafi ekki leikið inn á upptökurnar. Sveitin hætti svo störfum árið 1996.

Árið 2004 kom út á vegum Claire Records safnplata með sveitinni, og vaknaði þá áhugi hjá þeim á að byrja aftur að spila saman, en það gekk heldur losaralega, þar til að Tim Morris lést sviplega í vinnuslysi í febrúar 2005. Þau tóku sig þá til og hljóðrituðu 8 laga plötuna Morris til minningar um hann, og gáfu hana út sjálf. Eftir það varð ekki aftur snúið. Hljómsveitin túraði um Bandaríkin haustið 2006, og er akkúrat í þessum töluðu orðum að túra þar aftur, í þetta skiptið  m.a. á SxSW hátíðinni í Texas sem nú er ný afstaðin.

8. apríl næstkomandi lítur svo dagsins ljós fyrsta eiginlega breiðskífa þeirra síðan 1993, og ber hún heitið All of the Stars, og hægt er að panta hana nú þegar á secretshine.co.uk.

Secret Shine sá ég leika á tónleikum í Brooklyn árið 2006 og það var guðdómlegur hávaði. Ef þið hafið gaman af My Bloody Valentine, Lush, Ride, Chapterhouse og/eða Jesus and Mary Chain þá er þetta rakið dæmi. Ef ekki, þá er tími til kominn að safna hári ofaní augu og kíkja á skóna sína.

[MP3] Secret Shine - Adored (af EP plötunni Elemental 2006)
[MP3] Secret Shine - Lost Memory (af EP plötunni Beyond Sea and Sky 2006)
[MP3] Secret Shine - Liquid Indigo (af EP plötunni Greater than God 1994)  
[MP3] Secret Shine - Deep Thinker (af sömu plötu)

Það má glöggt heyra My Bloody Valentine áhrifin í Liquid Indigo, svo mikið að fólki hreinlega blöskrar núna, enda er þetta nú þekkt sem trademark sándið á Loveless plötu MBV.

Frábæran safndisk með eldra efni Secret Shine, After Years, má finna hjá tonevendor.com. Hann inniheldur alla Untouched plötuna, Greater than God EP plötuna sem og tvær smáskífur.

[Secret Shine á Myspace]


[MP3] Faunts

faunts

High Expectations/Low Results er heitið á frumburði kanadísku hljómsveitarinnar Faunts. Mér finnst ég endilega hafa rekist á nafn plötunnar í íslenskum fjölmiðli einhverntíman, en er þó viss um að hafa hvergi séð minnst á Faunts hér heima áður. Platan a tarna leit dagsins ljós árið 2005 og þrátt fyrir titilinn þá virðast allir sammála um að afraksturinn er prýðisgóður.

Bandið var stofnað haustið 2000 af bræðrunum Tim og Steven Batke og hafa þeir verið kjarninn í sveitinni alla tíð síðan. 2006 kom út EP plata en síðan hefur verið nokkuð hljótt um sveitina utan að lag með þeim var notað í XBox tölvuleikinn Mass Effect í fyrra, og tilnefnt til verðlauna sem slíkt.

Tónlistin er draumkennd í meira lagi, sigur rós gæti poppað upp í hugann á köflum. Vonandi halda þeir áfram á sömu braut og þá er ég viss um að þeir skjótast upp á stjörnuhimininn.  Persónulega held ég mest upp á "Of Nature" og "What I'd Love to Hear You Say."

[MP3] Faunts - Instantly Loved
[MP3] Faunts - What I'd Love to Hear you Say
[MP3] Faunts - Of Nature
[MP3] Faunts - Memories of Places We've Never Been
[MP3] Faunts - Will you Tell me Then

[Faunts á Myspace]


[MP3] Twee Tími - Club 8

club8

Johan Angergård úr hljómsveitinni Acid House Kings er sannarlega ekki við eina fjölina felldur, heldur mætti segja hann sé þúsund þjala smiður þegar kemur að popptónlist. Hann gefur út undir heitinu The Legends og er annar helmingur dúósis Club 8 ásamt Karolinu Komstedt. Saman hafa þau gefið út samtals 6 plötur og eru á leið í túr sem kemur við m.a. á Spáni og í Japan sem og Zaragoza, sem ég veit ekki hvar er en giska á að sé í Panama (ef mark er takandi á textasmíði Dr. Gunna í S/H Draumi). Dúettinn var stofnaður 1995 og seinasta platan þeirra, The boy who couldn't stop dreaming, hefur fengið afbragðsdóma. Þetta er náttúrulega keimlíkt Acid House Kings, og að sama skapi vel til þess fallið að slaka á við eftir eftir erfiðan vinnudag. Af eftirfarandi lögum mæli ég sérlega með "Whatever you want".

[MP3] Club 8 - Spring came, rain fell
[MP3] Club 8 - Whatever you want
[MP3] Club 8 - What shall we do next

[Club 8 á Myspace]
[Viðtal við Karolinu á indie-mp3.co.uk]


[MP3] Twee Tími - Suburban Kids with Biblical Names

subSænsku nördarnir Jóhann og Pétur eru Suburban Kids with Biblical Names. Þeir hófu að semja lög heima hjá Pétri í desember 2003, og árið eftir dreifðu þeir tveimur lögum á netinu og voru pikkaðir upp af Labrador Records, því hinum sama fyrirtæki og hefur fært okkur gersemin Acid House Kings og Sambassadeur. Meira veit ég ekki um þá félaga, nema hvað þeir semja ansi hreint skemmtileg lög. Enda þarf maður ekki alltaf að blaðra síknt og heilagt, það á bara að njóta tónlistarinnar. Hvernig er það annars, er "síknt" skrifað svona? Og hér eru tvö lög:

[MP3] Suburban Kids with Biblical Names - Funeral Face
[MP3] Suburban Kids with Biblical Names - Rent a Wreck


[MP3] Twee Tími - Acid House Kings

acidÉg hef gjarnan viljað meina að Twee sé hið nýja pönk. Það skiptir nefninlega oft ekkert máli þótt viðkomandi kunni ekki á hljóðfæri, eða þau séu ekki rétt stillt. Trommarinn þarf ekki endilega að halda takti, svo lengi sem útkoman er sæmilega catchy popplag. Og það er vissulega enginn hörgull á svona böndum, og flestir fussa og sveia yfir þeim því að útkoman þykir ekki nógu vönduð, jafnvel fólk sem ólst upp við pönk og ætti manna best að skilja að það sem skiptir máli er hvað maður gerir, ekki hvað maður getur.

Hitt er svo annað mál að Twee á sér líka bönd sem leggja mikinn metnað í vandaðar lagasmíðar og upptökur. Ein slík sveit er hin Sænska Acid House Kings. Ég væri líklega ekki að skjóta langt framhjá markinu með að segja að þau sæki einhver áhrif í lyftutónlist sjöunda áratugarins, og tískustrauma þess tíma. Bandið er orðið hrumt af elli ef marka má "bíóið" þeirra, stofnað árið 1991. 4 plötur hafa litið dagsins ljós og sú fimmta er væntanleg fyrri hluta þessa árs. Sú staðreynd að þau hafa bara gefið út 4 plötur á 17 árum skýrist af því hve mikið er vandað til verka við útgáfuna. Árið 2001 fjárfestu þau í sínu eigin stúdíó til að geta eytt sómasamlegum tíma í verkin. Fyrsta platan hét "Pop, look and listen", og sú seinasta "Sing along with the Acid House Kings". Þau eru núna á mála hjá Labrador Records í Svíþjóð sem einnig gefur út hina ágætu sveit Sambassadeur. Hér eru nökkur lög með Acid House King, rænt af Last FM.

[MP3] Acid House Kings - This and That
[MP3] Acid House Kings - Do what you wanna do
[MP3] Acid House Kings - Sunday Morning
[MP3] Acid House Kings - Say yes if you love me
[MP3] Acid House Kings - This Heart is a Stone

[Acid House Kings á Myspace]

acid2


[MP3] Twee Tími - Strip Squad

stripTwee er skemmtileg tónlistarstefna, og svíar eiga held ég heimsmet í framleiðslu á twee poppi. Það hlýtur að vera gaman í Svíþjóð, nema það sé bara svona ofboðslega leiðinlegt að fólk neyðist til að búa til kjánalega popptónlist til að létta lundina.

Strip Squad er einmitt eitt af mörgum góðum sænskum böndum sem gleðja hjarta manns, en hún hefur reyndar fengið stimpilinn "too vulgar to be twee". Og hvernig skyldi nú standa á því? Jú, textarnir eru með eindæmum klúrir og fjalla á opinskáan hátt um ríðingar og sjálfsfróun. Þau segja á heimasíðu sinni að bandið hafi verið stofnað árið 2003 þegar fimm ungmenni komust að því að sameiginlegt áhugamál þeirra var að fækka fötum á fylleríum. EP platan Just Obey! kom út árið 2005 og nýlega kom út platan The Aventures of Strip Squad. Plöturnar gefa þau út á eigin spýtur.

Ég mæli með að þau komi hingað á næstu Airwaves. Þau eru miklum mun skemmtilegri en dónarnir í The Teenagers.

Hlustið ef þið þorið!

[MP3] Strip Squad - Unreliable Narrator
[MP3] Strip Squad - You Cream my Pants
[MP3] Strip Squad - Hairless Youth of Bosnia
[MP3] Strip Squad - Pervert/Expert
[MP3] Strip Squad - If you don't take me right away you might as well fuck off

[Strip Squad á Myspace]


Ceremony - Stars Fall

Diskarnir með Ceremony, sem ég hef minnst á hér áður, duttu inn um lúguna um áramótin og hafa vart farið úr spilaranum síðan þá. Ceremony er systur sveit A Place To Bury Strangers sem er að gera það ansi gott þessa dagana, en báðar sveitirnar voru stofnaðar úr rústum Skywave, Paul Baker og John Fedowitz stofnuðu Ceremony meðan Oliver Ackerman stofnaði APTBS.

Ceremony gáfu út fyrstu skífuna sína árið 2005 og önnur skífan leit dagsins ljós í fyrra. Meðan aðrir hampa APTBS sem mest þeir mega þá finnst mér Ceremony um margt betra band, þar má vel greina áhrif frá eðalsveitum s.s. Slowdive, Ride, My Bloody Valentine, New Order og Jesus and Mary Chain.

Hérna er myndband við eitt af þeirra betri lögum, "Stars Fall", sem mun svo koma út á þriðju plötu þeirra félaga síðar á þessu ári:

 


[MP3] The Pains Of Being Pure At Heart koma til Íslands

pains_forsidaThe Pains of Being Pure at Heart frá New York eru að gera það gott núna, og þau lenda á Íslandi þann 1st mars. Sveitin spilar á Organ það sama kvöld ásamt Singapore Sling og Lada Sport. Þeim er gjarnan lýst sem léttari útgáfu af Jesus and Mary Chain, það er svipaður fílingur í tónlistinni, þungur trommuheili og veggur af gítar. Meðal áhrifavalda nefna þau einnig sveitir eins og Teenage Fanclub, The Ramones og Nirvana.

Sveitin var stofnuð í mars á seinast ári sérstaklega til að spila í afmælisveislu Peggy Wang, en hún leikur á hljómborð og syngur bakraddir. Þetta small svona líka vel saman og þau ákváðu að halda áfram, og gáfu fljótlega út EP disk sjálf, og stuttu seinna gaf Cloudberry Records út smáskífu með þeim. Síðan þá hefur jákvæðri gagnrýni rignt yfir þau, og nú eru þau á leið til Bretlands í túr. Tvær smáskífur eru þegar í bígerð á þessu ári og þau hyggjast hefja vinnslu á breiðskífu fljótlega eftir heimkomuna.

Hljómsveitin nýtir sér netið óspart og hefur dreift lögunum ókeypis þar, og hér eru einmitt þrjú lög til að hita upp:

[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - This Love is Fucking Right
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - The Pains of Being Pure at Heart
[MP3] The Pains of Being Pure at Heart - Doing all the Things that wouldn't make your Parents Proud


[MP3] Ceremony

cereTónlistarskríbentar hvaðanæva halda vart vatni yfir nýjust afurð Ceremony. Sveitin a tarna er ættuð frá Fredericksburg í Virginiafylki í Bandaríkjunum, og var stofnuð úr rústum hinnar ágætu sveitar Skywave. Lögin eru hlaðin yndislegum gítarhávaða, distortion og fuzz hreinlega vellur útúr eyrunum á þessum mönnum og undir öllu hamast trommuheili a la Jesus and Mary Chain.

Sjálfur er ég búinn að panta mér plötuna þeirra sem ber heitið Disappear, og bíð spenntur eftir gripnum. Hér gefur að líta nokkur hljóðdæmi, og fleiri (og jafnvel betri) lög er að finna á myspace síðunni þeirra. Sérstaklega mæli ég með laginu "Miss you".

[MP3] Ceremony - I heard you call my name
[MP3] Ceremony - Dull life

[Ceremony á Myspace]


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband