Færsluflokkur: Tónlist
8.10.2007 | 18:21
Pants Yell!
Pants Yell! frá Cambridge í Massachussetts komu hingað til lands í fyrrasumar og spiluðu með The Foghorns og Dýrðinni á Cafe Amsterdam. Bart Cameron var alveg rosalega hrifinn af þeim, en ég hef líka aldrei séð hann jafn drukkinn og það kvöld, gott ef það voru ekki kveðjutónleikar The Foghorns sama kvöld, en Bart var þá að flytja til USA einhverjum dögum síðar.
Pants Yell! voru þá að koma úr túr um Svíþjóð og Bretland, og spiluðu meðal annars á Emmaboda festivalinu. Tónleikar þeirra hér fóru ekkert mjög hátt, en þau komu hingað á mínum vegum og ég kunni ekkert að plögga. Þau fengu hinsvegar að skoða hverina hjá Krísuvík og hesta í Grindavík áður en þau flugu af landi brott. Þá voru þau með afar skemmtilegan kvenkyns trommara, Carly, sem hefur nú yfirgefið bandið. Andrew Churchman er heilinn á bakvið bandið og afar laghentur lagasmiður. Sterling Bryant spilar á bassa og seinast þegar ég vissi mátti hitta á hann í þeirri eðalbúllu Cake Shop í New York þar sem hann var að vinna, og þar sem bandið mitt spilaði í október í fyrra.
Þau gáfu út stórgóða pötu í fyrra sem hét Recent Drama, og þann 4 desember kemur næsta plata á vegum Soft Abuse. Platan ku heita Alison Statton í höfuðuð á söngkonu Young Marble Giants. Fyrsta lagið af plötunni, "Magenta and Green", er farið að birtast á tónlistarbloggum víðsvegar og lofar góðu:
[MP3]: Pants Yell! - Magenta and Green
[MP3]: Pants Yell! - Kids are the same (af Recent Drama)
[MP3]: Pants Yell! - Your feelings don't show (af Recent Drama)
[MP3]: Pants Yell! - My Boyfriend writes Plays (af Songs for Siblings)
[Pants Yell! á Myspace]
[Nýja platan hjá Soft Abuse]
Tónlist | Breytt 9.10.2007 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 17:18
Ultra Mega Technobandið Stefán
Ég skellti mér á Organ í gær og upplifði þar eina skemmtilegustu, og undarlegustu, tónleika þessa árs. Þar voru sómapiltarnir i Ultra Mega Technobandinu Stefán að spila. Ég hafði aldrei séð bandið áður og vissi ekki á hverju væri von, helst datt mér þó í hug að maður sæi nokkra alvarlega gaura húka yfir synthum og samplerum og snúa einhverjum óskiljanlegum tökkum.
Annað kom svo uppúr dúrnum, og ég tók mér fljótlega stöðu á bakvið eina súluna í salnum þegar söngvarinn, og reyndar allt bandið nema trommarinn, tóku að hoppa og skoppa af lífi og sál, hrinda hvor öðrum og velta græjunum sínum á gólfið.
Míkrófónninn datt fljótlega svo að segja alveg út, og áður en yfir lauk var bassinn líka ónýtur. Það stoppaði þó ekki fjörið og bassaleikarinn slammaði í pyttinum seinustu tvö lögin. Það myndaðist nefninlega sæmilegast slamm-pyttur fyrir framan sviðið þegar á leið, og þetta var eins og að vera á gargandi harðkjarnagiggi. Á milli einhverra laga lagðist söngvarinn svo á gólfið til að varpa öndinni, en ég og fleiri héldum að hann hefði hreinlega rotað sjálfan sig í hamaganginum.
Svo virtist sem fækkaði í salnum fljótlega, einhverjir hafa hreinlega ekki höndlað lætin. Það var líka gaman að heyra að margir klöppuðu sífellt hægar eftir hvert lag, það var einhver svona "hvað í fjandanum var að gerast?!" stemning þarna. Og það er bara alger snilld. Ég hló með sjálfum mér alla leiðina heim og sofnaði brosandi. Þannig á gigg að vera!
Ég hef ekki hlustað á neitt annað í vinnunni í dag en Ultra Mega Techno Bandið Stefán. Þeir spila svo á Nasa í kvöld líka og ég ætla að mæta þangað og taka mér stöðu í góðri fjarlægð.
[MP3] Ultra Mega Techno Bandið Stefán - Story of a Star
[Ultra Mega Techno Bandið Stefán á Myspace]
Tónlist | Breytt 10.10.2007 kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2007 | 23:25
Popsongs your new boyfriend's too stupid to know about
Tullycraft hefur lengi þótt með björtustu vonum Bandarísku indiepopp senunnar, en þó hafa þau ekki enn náð almennri hylli virðist vera. Það breytist vonandi á næstunni þegar fimmta plata þeirra kemur út hjá Magic Marker. Platan heitir Every Scene Needs A Center og er væntanleg á götuna þann 23 október.
Sveitin var stofnuð 1995 af fyrrum meðlimum sveitanna Crayon og Wimp Factor 14. Fyrsta smáskífan frá þeim innihélt slagarann "Popsongs your new boyfriend's too stupid to know about" sem er alveg þrususkemmtilegt lag. Fyrsta breiðskífan, Old Traditions, New Standards fylgdi svo í kjölfarið, og í framhaldi af því gáfu þau út smáskífur í Japan, Bretlandi, Þýskalandi og jú Bandaríkjunum, sem og fleiri breiðskífur.
Það er synd að hróður bandsins hefur ekki farið hærra, vonandi verður breyting þar á. Lögin grípa mann undir eins og það er allt í lagi að hafa í þeim léleg gítarsóló, hallærislegar bakraddir og texta sem varla komast fyrir í laginu, maður vill bara halda partý á nóinu þegar þetta fer í gang. Hérna getið þið hlustað á nokkrar gómsætar MP3 skrár:
[MP3] Tullycraft - Popsongs your new boyfriend's too stupid to know about
[MP3] Tullycraft - Twee
[MP3] Tullycraft - Wild Bikini
Af nýju plötunni, og ég er ekki frá því að það sé svoldill Buzzcocks fílingur í þessu:
[MP3] Tullycraft - The Punks Are Writing Love Songs
[Tullycraft á Myspace]
[Fullt af lögum með Tullycraft]
Tónlist | Breytt 29.10.2008 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2007 | 18:03
Girls Rock! 2 - Vicky Pollard
Girls Rock! var alveg þrususkemmtileg. Ég saknaði þess þó að hafa engan texta þar sem krakkarnir skilja nú takmarkað í ensku. Stelpan, 10 ára, horfði áhugasöm á þetta en strákurinn minn, 12 ára, leit út fyrir að vera að deyja allan tímann og ég hélt honum leiddist svona hrikalega. Það kom svo í ljós um kvöldið að hann var kominn með hita og hefur væntanlega bara verið svona ægilega slappur í bíóinu.
Leikstjórinn svaraði svo spurningum eftir sýningu myndarinnar, og ekki varð drengurinn hressari við það, en það var hinsvegar mjög áhugavert (fannst mér). T.d. má nefna að ef stelpurnar hafa ekki efni á að vera á námskeiðinu, sem kostar um 300 dali, þá er bara fundin einhver leið til að fjármagna það fyrir þær. Einnig kom fram að konur á fullorðinsaldri hefðu hrifist svo af conceptinu að það hafa verið haldin þó nokkur Rock 'n' Roll Camp for Women einnig. Þess má svo til gamans geta að Únu, sem ég minntist á neðar, brá þarna fyrir allavegana tvisvar, í annð skiptið syngjandi "Bush is such an idiot, he won't sign the kyoto treaty".
Talandi um stelpur sem rokka, þá brá ég mér á þann sómastað, Cafe Amsterdam, á laugardaginn og naut þess að sjá og heyra efnilegustu rokksveit landsins, Vicky Pollard (sjá mynd). Sveitin samanstendur af 4 frískum stúlkum og einum hressum gaur sem lemur á trommur. Það gustar af sveitinni og lögin eru skemmtileg, ég hvet fólk eindregið til að gefa þessu bandi gaum, og það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Og heyrum nú lag:
[MP3] Vicky Pollard - The Plan
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2007 | 17:41
The Magic Numbers
The Magic Numbers ku vera að koma til Íslands til tónleikahalds, sömu helgi og Iceland Airwaves er. Eitthvað þótti það á huldu hvort þetta væri hluti af Airwaves, en tónleikarnir verða haldnir í Fríkirkjunni.
Nú hef ég aldrei í Fríkirkjuna komið, svo ég muni. Er þetta góður tónleikastaður? Ég er að furða mig á að svona popphljómsveit spili þarna, er kannski svona mikið stuð í Fríkirkjunni? Það gæti þá verið gaman að sjá I Adapt eða Ham spila þar einhvern daginn.
Magic Numbers þekki ég svosem ekki neitt. Eitthvað rámaði mig í að hafa séð nafnið á rápi mínu um tónlistarblogg, og mikið rétt, sveitin hefur skotið upp kollinum á Indie Laundry, þar sem hinn rammíslenski Arnar gerir þeim skil. Ég náði mér þar í nokkrar hljóðskrár með bandinu, og er nú ekkert að kafna úr hrifningu, þetta er ósköp venjulegt og litlaust eitthvað finnst mér, sér í lagi lagið "Most of the Time" sem er einna helst fallið til að svæfa mann.
Þar með líkur minni umfjöllun um Magic Numbers. Mér þætti hinsvegar gaman að heyra í fleirum hvað þeim finnst þetta band hafa til brunns að bera.
MP3: The Magic Numbers - This is a Song
MP3: The Magic Numbers - Take a Chance
MP3: The Magic Numbers - Most of the Time
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2007 | 19:13
Girls Rock!
Heimildarmyndin Girls Rock! er á dagskrá kvikmyndahátíðar þessa dagana. Þetta er eflaust áhugaverð ræma og ég er að hugsa um að fara með krakkana mína á hana, þótt það kosti morðfjár. Í myndinni er fylgst með stúlkum í "rokkbúðum" í Portland, Oregon. þar fá stúlkurnar að spreyta sig á það hljóðfæri sem þær vilja, læra á það, semja lög og koma fram á tónleikum. Ekki síst er þeim kennt að staðalímyndir kvenna í fjölmiðlum eru ekki sannleikanum samkvæmar og að best er að vera bara maður sjálfur.
Ég komst að því fyrir ekki löngu að gítarleikari í einu uppáhaldsbandinu mínu, Kim Baxter í All Girl Summer Fun Band, kennir þarna í rokk kampinum. Einhverntíman tók ég viðtal við hana fyrir vefritið indie-mp3.co.uk, og í lokin átti hún svo að skora á annað band í næsta viðtal. Þannig komst ég í kynni við Úna og Katie sem saman mynda bandið Blübird.
Hljómsveitina stofnuðu þær stöllur einmitt í Rock and Roll Camp for Girls sumarið 2005. Báðar lærðu þær á hljóðfærin þar, Úna á gítar og Katie á trommur, báðar voru þær þá 11 ára. Þær hafa vakið nokkra eftirtekt fyrir pólitíska texta og lagið "Global Warming" hefur farið víða. Núna í sumar gáfu þær út frumraun sína, geisladiskinn We Are Birds.
Það er nokkuð skondið að hlusta á þær, þær kunna ekkert rosalega vel á hljóðfærin en eins og Einar Örn sagði, það skiptir ekki máli hvað þú getur heldur hvað þú gerir. Blübird er lifandi sönnun þess að rokkbúðirnar virka, núna tveimur árum seinna eru þær þegar búnar að gefa út disk og koma fram á fjölmörgum tónleikum. Það er mikið pönk í þeim, þær hika ekki við að gefa Bush fingurinn í textum sínum og gagnrýna stjórnvöld. Hlustið bara:
MP3: Blübird - Global Warming
MP3: Blübird - The Way You Thought It Was
Hérna syngur og leikur Úna svo ein á báti lagið "Little Yellow Lemons" eftir Cheralee Dillon. Maður heyrir það alveg að þarna er framtíðar músíkant á ferð.
MP3: Úna - Little Yellow Lemons
Lesa má viðtal mitt við þær í heild sinni hér.
[Rock and Roll Camp for Girls]
[Rock and Roll Camp for Girls á Myspace]
Trailer fyrir myndina. Virðist vera þrusustuð. Ég vildi það væri svona Rock'n'Roll kampur hér á landi!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2007 | 23:17
Ringo Deathstarr
Ef þið hafið gaman af Jesus and Mary Chain og/eða My Bloody Valentine þá er Ringo Deathstarr eitthvað fyrir ykkur. Þessir fjörugu fjórmenningar eru frá Austin í Texas og sækja áhrif sín greinlega til fyrrnefndra sveita, og gjarnan er talað um Dinosaur Jr. í sömu andrá líka.
Sveitin var að gefa út samnefnda EP plötu núna nýverið og hefur hún fengið lofsamlega dóma hvarvetna. Hávaði hefur oftar en ekki höfðað sterkt til mín þegar hann er listilega framinn, og svo er um þetta band.
MP3: Sweet Girl
Hægt er að fjárfesta í EP plötunni á mp3 formati hér, en hún verður gefin út á CD líka þann 29 október, þegar bandið mun slá endanlega í gegn með því að hita upp fyrir Dandy Warhols í Dallas og Austin.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2007 | 22:55
Professor Pez á leið til Íslands
Professor Pez er indípopp band frá Bergen í Noregi. Í nóvember mun hljómsveitin gera strandhögg á Íslandi á leið sinni í tónleikaferðalag um austurströnd Bandaríkjanna, og spilar á Organ þann 7. nóvember. Af íslenskum hljómsveitum þá er ég ekki frá því að þau eigi sér einhverja hliðstæðu í Benna Hemm Hemm.
Sveitin gaf út sína fyrstu plötu hjá Galant Records árið 2004, og bar hún hetiið Let us follow the evil balloon. Næsta plata hét We found the beach, where is the sea? og núna í haust er væntanleg þriðja plata sveitarinnar, en á henni verður smellurinn Papillon sem þegar er farinn að vekja talsverða athygli á sveitinni þar ytra og vonandi víðar.
Textar sveitarinnar eru skemmtilegir og eru svoldið eins og þeir séu samdir af 15 ára tölvunörd sem les vísindaskáldsögur, í það minnsta á fyrstu tveimur plötunum. Næsta plata, sem ber heitið Hordaland, ku vera nokkurs konar þemaplata, þar sem allir textarnir fjalla um atburði í heimahéraði þeirra, Hörðalandi. Petter Saetre, forsprakki sveitarinnar, lýsir henni sem nokkurs konar norskri útgáfu af Michigan og Illionois plötum Sufjan Stevens. Papillon fjallar til að mynda um flótta úr fangelsi nokkru á Ulfsnes eyju í Osterøy firði sem er ekki langt frá Bergen.
Það verður stuð að sjá bandið á tónleikum, en þangað til getið þið hlustað á nokkur lög. Að öðrum ólöstuðum þá mæli ég með "The Perfect Test" ef lítill tími er til að hlusta. "Looking at Stars" er líka ljómandi falleg ballaða. Og hin lögin eru alveg súper líka. Lagið "Papillon" er svo hægt að "streama" á Myspace.
MP3: Professor Pez - Indiepopkids
MP3: Professor Pez - The Perfect Test
MP3: Professor Pez - Imperial Airways
MP3: Professor Pez - Looking at Stars
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2007 | 09:08
Tónleikar til styrktar Úlfi Karlssyni
Mr. Silla, Reykjavík!, Pornopop, Mínus, Singapore Sling, Bacon og The Way Down. 6. október í Iðnó.
Eftirfarandi skeyti barst mér frá Gísla Sigurjónssyni rétt í þessu:
Úlfur C Karlsson tón- og myndlistamaður hefur strítt við hvítblæði seinustu ár. Eins og gengur hefur hann gengist undir ótal læknismeðferðir og verið inn og út af sjúkrastofnunum í gegn um þennann tíma. Hann er fjölskyldufaðir og hefur konu og barn fyrir að sjá en hefur sökum veikinda sinna lent illilega úti fjárhagslega og nú er svo komið að þessi litla fjölskylda er að þrotum komin. Ég er í forsvari fyrir nokkra vini og félaga Úlfs sem komum saman og viljum sýna í verki samhug og stuðning með Úlfi í þessum þrautum sem hann og fjölskylda hans ganga í gegnum. Grunnhugmyndin er sú að erfiðleikarnir sem fylgja slíkum veikindum hljóti að vera hverjum manni nóg raun, fjárhagslegar áhyggjur í ofanálag er eitthvað sem við getum ekki horft upp á aðgerðalaus.
Af þessum orsökum söfnuðumst við saman til að halda þess tónleika, til þess að safna í sjóð til þess að Úlfur og kona hans þurfi ekki að hafa eins miklar fjárhagslegar áhyggjur í ofanálag við allt það erfiði sem fylgir því að stríða við jafn erfiðann sjúkdóm. Allir sem koma fram gefa vinnu sína og eru allir tengdir Úlfi í gegn um vin- eða kunningskap.
Ég hvet fólk eindregið til að mæta og styðja Úlf og fjölskyldu. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast með því að senda Gísla póst á gisli@onno.is.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2007 | 14:40
Hljómborð vantar
Er einhver þarna úti sem gæti verið svo elskulegur að lána The Besties hljómborðið sitt í nokkra daga, nánar tiltekið frá og með 12 ágúst til og með 16 ágúst. Hljómsveitin er að koma hingað eftir túr um Svíþjóð og Bretland, og þurfa að fá öll hljóðfæri lánuð. Það eina sem vantar uppá er sæmilegt hljómborð, þarf ekki að vera neitt grand, en mætti vafalaust vera með fleiri en 10 mismunandi sándum. Ég tek persónlulega ábyrgð á gripnum.
Vinsamlegast bjallið í mig í 6699564 ef einhver getur séð af hljómborðinu sínu í nokkra daga.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)