Færsluflokkur: Tónlist
5.8.2007 | 13:47
Tónleikar á Gauknum 9unda ágúst
Jan Mayen, Tilburi og Dýrðin troða upp á Gauknum þann 9unda ágúst næstkomandi. Jan Mayen er nú óþarfi að kynna, og flestir ættu að kannast við Dýrðina. Öðru máli gegnir um Tilbura og það er því ekki úr vegi að kíkja nánar á hana hér.
Hljómsveitin a tarna var stofnuð líklegast 1991 eða þar um bil. Undirritaður var þá bassaleikari sveitarinnar og raddböndin þandi Róbert nokkur Douglas nú betur þekktur sem einn áhugaverðasti kvikmyndaleikstjóri þjóðarinnar. Tilburi tróð á þessum árum upp með sveitum eins og Kolrössu Krókríðandi, Púff og Curver. Veraldarkeröld útgáfan gaf svo út 7 tommu vínyl plötu með þeim árið 1994 og hljómsveitin hætti svo störfum um árabil.
Fyrir nokkrum árum kom svo bandið saman aftur, og nokkrar mannabreytingar urðu, þannig að nú er sveitin skipuð Jónasi Vilhelmssyni, trommara, Þorra sem syngur, Mounir leikur á gítar og Stebbi er á bassa. Stebbi þessi er mörgum að góðu kunnur úr sveitinni Sagtmóðigur. Jónas lék á trommur með Soma (sem átti smellinn Grandi, Vogar árið 1997).
Þeir félagar voru nýverið í stúdíói að taka upp grunna að nokkrum lögum og það er óskandi að þeir fái einhvern til að gefa þetta út hið fyrsta, því þarna er fjöldinn allur af fínum lögum á ferðinni. Þeir eru ennfremur þrusuþéttir á tónleikum, miklu betri en þegar ég var í bandinu. Einkar gaman er að fylgjast með hinum knáa trommara Jónasi en litlu má muna að trommusettið brotni í spón þegar hann er kominn í stuð.
Hérna eru tvær upptökur með bandinu, og fleiri er að finna á Myspace síðu sveitarinnar:
MP3: Tilburi - Meðfram Tjörninni
MP3: Tilburi - Lífskúnstner
Og svona til að hafa það alveg á hreinu þá eru tónleikarnir á Gauknum, fimmtudaginn 9unda ágúst. Það ku kosta 1000 kr. inn og mæting er eigi síðar en 21.00.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2007 | 14:23
Horowitz
Horowitz er stórskemmtilegt band frá Stoke-On-Trent í Bretlandi. Þeir félagar eiga eitt skemmtilegasta lag sem ég hef heyrt þetta árið, óð til söngkonu Camera Obscura, Tracyanne. Lagið var gefið út á 3 tommu geisladiski hjá Cloudberry Records í Miami fyrr á árinu og ég var svo heppinn að ná mér í eintak áður en diskurinn seldist upp, en Cloudberry gefa bara út í 100 eintökum.
Lagið er rétt yfir 2 mínútur sem er alveg fín lengd á lagi, mjög grípandi með ljómandi fallegum gítarriffum og þar sem ég veit eiginlega ekki meira um bandið þá gjörið þið svo vel og hlustið á þessa snilld:
MP3: Horowitz - Tracyanne
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2007 | 17:38
The Ethnobabes
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2007 | 17:44
Dah Da Candy
Dah Da Candy er hinn 27 ára gamli Kmarl frá borginni Kobe í Japan. Hann er afar hrifinn af tónlistarstefnu sem kennd er við shoegaze á ensku, en það mætti gjarnan kalla "skógláp" uppá íslensku. Fremsta í flokki meðal skógláps hljómsveita má nefna t.d. My Bloody Valentine og Slowdive, en Kmarl sækir umtalsvert í smiðju fyrrnefndu sveitarinnar, og ef ekki væri fyrir nefmælta japanska hreiminn hans mætti halda að Kevin Shields og félagar væru upprisin.
Orðið "shoegaze" er nú komið til af þeirri einföldu ástæðu að hljómsveitir sem spiluðu svona breskt hávaðarokk áttu það flestar sammerkt að meðlimir sveitanna voru feimnir í meira lagi og horfðu gjarnan beint niður allan tímann sem þær spiluðu, og ekki var verra ef myndarlegur hárlubbi huldi andlitið líka.
Dah Da Candy hefur gefið út eina plötu, Ghost Rider, og kom hún út í fyrra. Ekki er þó um eiginlega alvöru útgáfu að ræða þar drengurinn er ekki með hljómplötuútgáfu á bakvið sig og lét sér nægja að brenna diskinn sjálfur.
Unnendur shoegaze stefnunar geta unað glaðir við þau lög sem hann býður uppá á myspace síðu sinni, en þar er hægt að sækja fjöldann allan af mp3 skrám. Ég læt nokkrar fylgja með hér sem vöktu hvað mesta lukku hjá sjálfum mér og þar mæli ég sérstaklega með "Red Flower". Og mér er alveg nákvæmlega sama þótt hann sé að stæla My Bloody Valentine, það er alltaf gott að hlusta góðan hávaða!
MP3: Dah Da Candy - Red Flower
MP3: Dah Da Candy - Moon Light Shower
MP3: Dah Da Candy - Cowberry
Ef þið hafið gaman af skóglápi á annað borð skuluð þið kíkja á Milk Milk Lemonade bloggið, en þarna er að finna gríðarlegt magn af góðum lögum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2007 | 10:58
The Way Down
Jón Sæmundur, kenndur við Dead, lætur sér ekki nægja að hanna og selja drungaleg föt sem renna út eins og heitar lummur, heldur hefur hann nú líka sett á fótinn útgáfufyrirtækið Dead Records.
Fyrsta útgáfa Dead Records leit dagsins ljós á föstudaginn í seinustu viku, þegar platan See You In Hell með The Way Down kom út. Um er að ræða þriggja tommu geisladisk sem, þrátt fyrir stærðina, inniheldur hvorki meira né minna en 9 lög.
Forsprakki sveitarinnar er bassaleikarinn Ari Eldon sem áður hefur komið við sögu í hljómsveitunum Bless, Dýrið Gengur Laust og Sogblettum. Honum til stuðnings er ektakvinna hans Riina, sem leikur á gítar, og á trommurnar lemur Maggi "Thunder" Þorsteinsson. Maggi átti spretti hér áður fyrr t.d. með Bleiku Böstunum sem gáfu út vínyl plötu hjá Smekkleysu fyrir um 20 árum síðan, og hann hefur í nógu að snúast þessa dagana þar sem hann trommar einnig með hljómsveitinni Bacon.
Diskurinn með The Way Down fæst í það minnsta í 12 Tónum ef ekki á fleiri stöðum, og væntanlega í nýlega opnaðri Dead búð sem er nú í bakhúsi á Laugavegi 29, beint á móti Skífunni. Ég mæli alveg hiklaust með þessum disk, og það verður spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þessa nýju útgáfu.
MP3: The Way Down - Lee Black Childers
MP3: The Way Down - Metamphetamine (óútgefið demo)
Heimasíða The Way Down
Heimasíða Dead
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 12:41
The Besties
The Besties, frá Brooklyn, eru væntanleg hingað til lands um miðjan ágúst til tónleikahalds. Þarna er alveg stórskemmtileg hljómsveit á ferð, sem vakið hefur nokkra athygli að undanförnu, en flokka mætti tónlist þeirra undir það sem er kallað Twee Pop. Einhversstaðar sá ég þá skilgreiningu á orðinu "twee" að það væri "overly precious and nice". Fyrsta platan þeirra var gefin út í fyrra af Skipping Stones Records, og í ár gáfu þau út sjö tommu hjá Hugpatch.
Á plötunni a tarna notast þau við skemmtilega gervilegan trommuheila, en einnig eru tvö hljómborð, gítar og öll syngja þau, en áberandi eru þó stúlkurnar, Marisa og Kelly. Í fyrra bættu þau svo við trommuleikaranum Frank sem keyrir alla leið frá Boston til NYC til að æfa. Í sumar eru þau á túr um Bandaríkin, en fara svo til Bretlands og Svíþjóðar, þar sem þau spila meðal annars á Emmaboda festivalinu.
Platan þeirra, sem heitir Singer, inniheldur m.a. lögin "Prison Song", "Space Song", "Western Song", "Pirate Song" og "Zombie Song" svo það má segja þau fari ótroðnar leiðir í efnisvali, en allir eru textarnir þó um klisjukennda hluti í meira lagi.
"Zombie boy, i cant get you out of my head,
zombie boy, sometimes you make me wish i was dead"
Nú eða:
"Tap tapping on your plastic helmet
trouble breathing from the lack of atmosphere
baby, we can climb aboard your rocket
honey, you can take me far away from here
It gets so lonely on the red red planet
nothing to do, nothing to see. no place to go
baby, i wanna end up in your orbit
see my planet dissapear so far below"
Hljómurinn þeirra er afskaplega naívur, og skemmtilega svo. Þau nota bara trommuheilann sem fylgir með hljómborðinu, sem þau kölluðu "Shitkicker", og er alveg nákvæmlega sama þótt það hljómi hallærislega. Lögin eru barnaleg og einlæg, og hljómsveitin er afskaplega skemmtileg á tónleikum.
Kíkið á myndbandið við Prison Song, eða sækið það hér, ef þetta javascript embed drasl virkar ekki.
Heimasíða The Besties
The Besties á Myspace
The Besties á tónleikum í Cakeshop, NYC
MP3: Space Song
MP3: Sweden Song
MP3: Prison Song
Tónlist | Breytt 29.6.2007 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2007 | 19:33
And Also The Trees
Meðan við hinkrum eftir að vita eitthvað um hljómsveitina Vér Eðlum Oss, er ekki úr vegi að kynna fyrir ykkur And Also The Trees. Ef ég man rétt þá heyrði ég fyrst í þeim í útvarpsþættinum Prógramm sem var á dagskrá á sunnudögum á Útvarpi Rót, fm 106.8. Það hefur væntanlega verið árið 1989 þegar tónlistarsmekkur minn tók sem stærstum breytingum. Sigurður Ívarsson sá um þáttinn og vann einnig í Gramminu á þeim tíma, og endaði með að hann seldi mér fyrstu plötu hljómsveitarinnar eftir að ég var búinn að spila útvarpsupptökuna í tætlur.
Sveitin var stofnuð 1980 í sósuhéraðinu Worcestershire í Englandi, og fyrsta plata þeirra var pródúseruð af Lol nokkrum Tolhurst sem flestir ættu að þekkja úr The Cure. Þeir hituðu einnig upp fyrir The Cure á einhverjum túrnum árið 1981. Fyrstu plöturnar þeirra innihalda margan gullmolann en flest það sem kom út eftir fjórðu plötuna hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Þær einkenndust af myljandi þungum bassa, gíturum vaðandi í flanger-, chorus og delayeffectum og drungalegum textum sungnum með drungalegri röddu. Eitthvað hafa þeir svo róast með árunum og fimmta platan þeirra var svo mikil vonbrigði að ég losaði mig við hana aftur.
Það ku vera ný plata væntanleg frá þeim í haust, og nýverið kom út DVD diskur með upptökum af tónleikum þeirra í Genúa árið 2003. Hann inniheldur:
Gone like the swallows
Maps in her wrists & arms
Brother fear
Genevieve
Feeling fine
A room lives in Lucy
In my house
Slow Pulse Boy
The willow
The untangled man
The obvious
The reply
Virus meadow
Wallpaper dying
Hér eru svo nokkur tóndæmi með sveitinni, ég mæli alveg sérstaklega með Slow Pulse Boy sem húkkaði mig upphaflega.
Af sjáf-titluðu plötunni (1984): Impulse of Man
Af Virus Meadow (1986): Slow Pulse Boy
Af Millpond Years (1988): The House of the Heart
Af Further from the Truth (2003): The Untangled Man
Heimasíða sveitarinnar
Wikipedia
Hérna er svo ægilegt tónleikamyndband með þeim af YouTube, þar sem þeir leika og syngja "Dialogue" af plötunni The Klaxon:
Textinn við Slow Pulse Boy, takið eftir óvenju litríku myndmálinu:
Somewhere the blast furnace explodes
Plumes of amber in the night sky
Each explosion bounces
From horizon to horizon
From horizon... to horizon
And for a while, the slow pulse boy
Stood by the window
And let the fire sink into his skin
Again all was still
But for the empty tin
Rolling up and down a gutter
On the breeze
Then we were standing very close
I could live in the space
Between his heartbeats
Outside the blast furnace erupts again
And dark red rivers
Filled our veins with frenzy
We could tear up the floors
And find all the things we'd ever lost
And the fire burns in our jack boots
So we chase the explosions
From horizon to horizon
Wrap ourselves around the distance
For as long as we can hold
Somewhere a girl is singing
There is calm in the air
But there is greater calm than I can bear
Tomorrow the sun shines
Tónlist | Breytt 24.5.2007 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2007 | 13:41
Vér Eðlum Oss
Nýverið tókst mér að tengja gamalt segulbandstæki við tölvuna mína, og síðan hef ég verið að týna til ýmsar gersemar af gömlum spólum og yfirfæra á stafrænt form. Það fyrsta sem lítur dagsins ljós er upptaka úr einhverjum útvarpsþætti, um 1989, þar sem fram kemur hljómsveitin "Vér Eðlum Oss".
Nú veit ég ekki neitt um þessa hljómsveit, og yrði afar þakklátur ef einhver getur veitt mér upplýsingar um hana. Frómt frá sagt þá höfðar þetta lag vel til mín, sér í lagi þessi ljómandi fallegi og einfaldi bassaleikur, sem minnir mig mikið á hljómsveitina And Also The Trees, sem ég held mikið uppá. Það vantar reyndar framan á upptökuna, en á eftir henni er sveitin kynnt með nafni. Ég myndi giska á að þetta hafi verið spilað í þættinum "Neðanjarðargöngin" sem á þessum tíma átti sér dyggan en vafalaust frekar lítinn hlustendahóp.
Ef einhver þekkir til þessarar hljómsveitar, sendið mér þá upplýsingar í kommentakerfi ellegar á netfangið maggih @ mmedia.is.
MP3: Vér Eðlum Oss
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2007 | 13:49
We are Scientists leika og syngja Hoppípolla
Gaman að heyra We are Scientists þjösnast í gegnum þessa útgáfu sína af Sigurrósarlaginu Hoppípolla. Og það meira að segja á íslensku. Njótið vel. Meira seinna.
MP3: We are Scientists - Hoppípolla
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 13:27
Viðtal við Eírík Hauksson
Góðan daginn. Hér ætla ég, eftir því sem tími gefst til, að kynna til til sögunnar lítt þekktar hljómsveitir af ýmsum toga, og eftir því sem hægt er bjóða upp á hljóðdæmi á mp3 formi.
Til að byrja með datt mér þó í hug, þar sem Eiríkur Hauksson hefur verið eilítið í fréttunum undanfarið, að bjóða uppá viðtal við garpinn. Árið 1986, þegar ég var á 13 ári, átti ég nefninlega þátt í útgáfu lítils skólablaðs í Æfingaskólanum, sem nú kallast Háteigsskóli. Ég og félagið minn Jón Torfi Gylfason, sem ég held að sé læknir núna, fengum þá snjöllu hugmynd að gera blað, sem reyndar varð ekki nema eitt tölublað.
Blaðið fékk nafnið "Vá" og hefur eflaust verið innspírað af t.d. íslenska tímaritinu Smellur. Það kostaði 50 kr. og innihélt m.a. brandara, umfjöllun um sjónvarpsþáttinn Dallas, skoðanakönnun um hvernig fólki litist á að ísland væri farið að flytja út vatn, og síðast en ekki síst fórum við með stjörnur í augum að taka viðtal við Eirík Hauksson sem þá var að skjótast upp á stjörnuhimininn með tríóinu Icy. Allt var þetta samviskusamlega vélritað, ljósritað og heftað saman.
Ég man ekki mikið eftir viðtalinu sjálfur, en við hittum hann í heimahúsi í teigunum, hugsanlega í Hraunteig. Við vorum auðvitað ægilega feimnir við hann og uppnumdir af að vera í návist svona frægs manns. Viðtalið er svo barn síns tíma, til að mynda var Rás 2 eini miðillinn þar sem hægt var að heyra popptónlist, og margir brutu lög og tóku ólöglega upp tónlist á kassettur úr útvarpinu. Því er þarna m.a. undarleg spurning um Rás 2.
Viðtal við Eirík Hauksson - 1986
Kvæntur: Helgu Guðrúnu Steingrímsdóttur
Barn: Hildur Eiríksdóttir, 5 ára
Menntun: Útskrifaður kennari
Skónúmer: 42
Aldur: 26 ára
Hafðir þú ætlað þér frá blautu barnsbeini að verða kennari?
Nei, alls ekki. Alveg fram til 15 ára aldurs var ég ákveðinn í að verða atvinnumaður í knattspyrnu.
Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir í þessum svokölluðu bílskúrshljómsveitum
Þá var ég 15 ára.
Finnst þér nægilega mikið gert til að koma óreyndum bílskúrshljómsveitum á framfæri?
Nei alls ekki, það er mjög leiðinleg aðstaða sem þannig hljómsveitir eru í, fá ekkert að spila.
Hvað varð um Drýsil?
Drýsill er lagstur í dvala, en það getur vel verið að sú hljómsveit verði endurvakin einhverntíman seinna.
Ertu alveg hættur að spá í gamla góða Drýsilsrokkið?
Nei alls ekki, það er alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér.
Hvaða álit hefur þú á hljómsveit á borð við Duran Duran?
Þeir hafa svosem gert ágæta hluti, en í heildina finnst mér þeir ekkert mjög spennandi, spila meira upp á útlitið en tónlistina.
En Rikshaw?
Þeir eru nokkuð skemmtilegir finnst mér, ne ég hef bara ekki heyrt nógu mikið í þeim.
Er nokkur friður fyrir blaðamönnum á þínu heimili?
Já, það hefur verið heldur mikið um það á mínu heimili svona upp á síðkastið. En Maður talar bara við þá sem maður vill tala við.
Heldurðu að klæðnaðurinn skipti máli í poppbransanum?
Já, hann gerir það, gífurlega mikið.
Semurðu tónlist sjálfur?
Já, ég hef gert það, ég samdi til dæmis næstum öll lögin á Drýsilsplötunni, einnig samdi ég megnið af því sem var með hljómsveitinni Start. En ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að semja upp á síðkastið.
Spilarðu á eitthvað annað en raddböndin?
Já, líka á gítar og smá á hljómborð
Lestu poppblöð eins og sumir sannir poppaðdáendur?
Nei, ekkert að ráði, en maður svona gluggar í þetta þegar maður fer að versla í Hagkaup.
Hyggur þú á sólóplötuútgáfu?
Já, ég reikna með að gera það einhverntíman á þessu ári.
Hvernig eyðir þú frítíma þínum?
Þeir eru engir (hlær). Eða allavegana mjög lítið um þá núorðið, þá nota ég bara tímann og slappa af með fjölskyldunni. Það veitir ekki af.
Hvaða álilt hefur þú á íslenskri popptónlist?
Hún er ágæt, en það sem háir okkur helst er það að markaðurinn er svo lítill.
Standa nágrannalönd okkar betur að vígi en við í poppinu?
Já, þau gera það, við erum alltaf dálítið einangruð hérna norður í hafi.
Er einhver sérstakur íslenskur poppari sem er í miklu uppáhaldi hjá þér?
Já, til dæmis Björgvin Gíslason gítarleikari, ég hef alltaf haldið mikið upp á hann.
Nú er Gunnar Þórðarson einn af frumkvöðlum poppsins hér á landi, hvernig er að vinna með honum?
Það er mjög þægilegt, hann hefur mikla reynslu og er rólegur og yfirvegaður.
Hvernig leist foreldrum þínum á þetta brask í þér?
Bara ágætlega. Til dæmis var mamma miklu hrifnari af því að ég væri í poppinu heldur en með mótorhjóladellu.
Nú hefur sá orðrómur lengi verið á sveimi að Rás 2 dragi úr plötusölu. Hvaða álit hefurðu á henni? (Rás 2 semsagt).
Ég er nú ekki viss um að hún dragi úr plötusölu, en hinsvegar þá var hún mjög stöðnuð í músík, sama tónlistin í sitthvorum þættinum með sitthvorum stjórnanda. En hún hefur skánað mikið undanfarið ...... síðan hún fór að spila mína tónlist (hlær).
Nú átt þú þér, eins og flestir frægir popparar eiga, aðdáendahóp. Þarftu ekki að panta lífverði þegar þú ferð út að versla svo þeir ráðist ekki á þig?
Nei, ekki er það nú svo slæmt, en maður er stundum beðinn um eiginhandaráritun. Það er allt í lagi.
Hvernig varð þér innanbrjósts þegar þú áttir þess kost að fara til Bergen?
Ég var svona efins, en eftir að hafa íhugað þetta þá ákvað ég að slá til, þetta getur verið skemmtileg reynsla.
Hvað fannst þér besta lagið af þeim tíu sem kepptu til úrslita hér á landi?
Mér fannst besta lagið "Gefðu mér gaum", eftir Gunna, sem ég söng (hlær).
Hvernig stóðstu þig sem strákur í skóla?
Svona þokkalega, lærði fyrir prófin og náði þeim.
Hvernig bækur lestu helst?
Ég les mjög lítið af bókum, en nýlega fór ég í gegnum allt Sherlock Holmes safnið. Ég les aðallega spennu- og leynilögreglusögur.
Við ritstjórar tveir þökkum Eiríki Haukssyni kærlega fyrir þetta viðtal, og fyrir að hafa fengið að eyða dýrmætum tíma hans. Eiríkur er brosmildur og skemmtilegur. Það var virkilega gaman að kynnast honum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)