[MP3] Magic Wands

magic

Ég á það til að stilla á X-ið 977 á morgnana meðan kaffið er að malla. Þeir eru eitthvað hressilega að misskilja hlutina. Glaðhlakkalegur maður skýtur inn á milli laga frasanum "X-ið, þú heyrir það fyrst hér!", og svo kemur "Bohemian like you" með Dandy Warhols. Eins og enginn hafi nokkurn tíman heyrt Vodafone lagið áður.

Ég held að þetta sé ekki allskostar rétt. Reyndar hef ég yfirleitt heyrt öll lög á X-inu áður, man allavegana ekki í svipinn eftir að hafa uppgötvað einhver ný sannindi þar, enda keyrir stöðin á playlista eins og aðrar gróðamaskínur. Fólk vill upp til hópa hlusta á eitthvað kunnuglegt. Ég held miklu frekar að þú heyrir það fyrst hér, á mp3.blog.is. Útvarpsstöð fólksins!

Hver hefur til dæmis heyrt í Magic Wands áður? Ekki ég, ekki fyrr en undarleg grein á visir.is (þeim fjölgar sífellt), fjallaði um öryggisvörð í 10-11 sem bar "sprota" innanklæða. Einhver þankagangur í framhaldi af þeirri frétt endaði með því að ég var að hlusta á Magic Wands í góðum fíling. Enn veit ég hinsvegar ekki hvers eðlis þessi sproti er sem þykir hentugur við öryggisvörslu. Ekki er það töfrasproti, og varla tónsproti. Guð hjálpi okkur öllum ef það er svona töfrasproti sem tíðkast að nota á heimilum við að tæta niður grænmeti og ávexti, ég vildi síður fá einn slíkan í smettið.

Saga sveitarinnar er þyrnum stráð ástarsaga. Chris og Dexy hittust á tónleikum í LA árið 2006, og tóku tal saman, án þess að úr því yrði neitt meira í það skiptið. Ári síðar var Chris að rápa um Myspace og féll fyrir lagi á einhverjum prófíl þar sem hét Teenage Love. Síðar komst hann að því að Dexy hafði samið lagið, hann skrifaði henni bréf og þau hófu ástríðufullt internet samband, spjölluðu um tónlist og skiptust á mp3 skrám. Þar sem þau bæði höfðu áhuga á að semja tónlist þá endaði með því að þau sömdu saman nýja smelli gegnum netið. Eftir það fer þetta hríðversnandi, þau fóru að senda hvort öðru gjafir, s.s. bangsa, handskrifuð ljóð, nammi, tjah, svei mér þá, þetta endar með ósköpum.

Núna eru þau fastir liðir á Lollapalooza og Glastonbury, og hafa afrekað það að birtast á þessu bloggi. Njótið vel:

[MP3] Magic Wands - Black Magic
[MP3] Magic Wands - Teenage Love

Þú heyrir það fyrst á mp3.blog.is! Hefur annars einhver heyrt um þetta band áður? Ég á það til að vera svoldið eftir á, og þessi lög hljóma eitthvað kunnuglega.

[Magic Wands á Myspace]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband